Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 12:57:05 (6167)

2001-03-29 12:57:05# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[12:57]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einfaldlega rangt hjá hæstv. utanrrh. Deilan hefur staðið um það hér í þingsölum á hvern hátt orkan er nýtt og til hvers. (Utanrrh.: Til hvers á að nýta hana?) Við sem höfum verið á móti þessari sérákvæðapólitík erum á móti því að við séum að fá sérstakar tilslakanir á alþjóðavettvangi til þess að geta byggt upp stóriðju. Um það hefur þessi deila alltaf snúist, hæstv. utanrrh., og ekkert annað. Hún snýst um það að Íslendingar lokist ekki inni í stóriðjupólitíkinni. Hvað á síðan að gera? Hver ætlar að greiða kostnaðinn af sérákvæðinu þegar þar að kemur? Hver ætlar að gera það? Hvað eru íslensk stjórnvöld að gera í samgöngugeiranum t.d.? Hvað með útblástur frá fiskiskipum? Hvað með útblástur frá bílum? Menn einblína á stóriðjuna og gleyma öllu hinu vegna þess að stóra lausnin árið 2001 er enn þá stóriðja og hún hefur m.a. valdið því að við höfum ekki getað farið inn í þessar umræður eins og ég hefði kosið. Hún hefur m.a. valdið því að við höfum verið í félagsskap við þær þjóðir sem losa mest og vilja, eins og komið hefur á daginn núna, ekkert gera til þess að draga úr losun heima fyrir. Það hefur komið skýrt fram í máli Bandaríkjaforseta. Hann ætlar, takk fyrir, ekkert að gera því það má ekkert gera sem gæti ekki hentað olíufyrirtækjunum. Þetta er ósköp einfaldur sannleikur og hann hefur svo sem legið fyrir lengi. En það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að nú eru blikur á lofti og við höfum ekki áður staðið frammi fyrir því að forseti Bandaríkjanna segi sig frá loftslagssamningnum.