Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 13:48:50 (6170)

2001-03-29 13:48:50# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. dettur í þann pytt að koma með frasa sína í ræðustólinn þegar beðið er um málefnalega umræðu. Hann sakar mig um bölsýni sem ég á ekki til.

Herra forseti. Það er ekki lífsspursmál fyrir Íslendinga að virkja hin miklu vatnsföll sín í þágu stóriðju. Það er ekkert í heiminum sem knýr okkur til að gera það. Hins vegar er sjálfsagt að við nýtum náttúruauðlindir okkar á sjálfbæran hátt.

Herra forseti. Alheimssamfélagið hefur gefið út yfirlýsingu um það að vatnsaflsvirkjanir af þeirri stærðargráðu sem Kárahnjúkavirkjun er séu ekki sjálfbærar. Slíkar virkjanir eru andstæðar hugmyndinni á bak við sjálfbæra þróun. Þess vegna segir Vinstri hreyfingin -- grænt framboð: Nýtum vatnsafl okkar á annan hátt. Hvað eigum við eftir af vatnsorku, þegar búið er að virkja Kárahnjúkavirkjun, til að fara út í vetnissamfélagið sem Framsóknarflokkurinn lætur okkur stöðugt halda að hann vilji fara út í? Það verður ekkert eftir af þessu vatnsafli þegar búið er að koma upp risaálbræðslu á Austurlandi, stækka álbræðsluna uppi á Grundartanga og eyða öllum náttúrulegum vatnsaflsauðlindum okkar í stóriðjuna.

Herra forseti. Af því hæstv. utanrrh. talar mikið um hugvit og þekkingu og tækniframfarir, af hverju leggja Íslendingar þá ekki sín lóð á vogarskálarnar að efla þær tækniframfarir? Í heiminum eru að störfum vísindamenn sem eru að reyna að finna upp efni sem leysa álið af hólmi. Herra forseti, ég þori að fullyrða það að eftir 30 ár verður ál orðið gamaldags efni.