Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 13:54:22 (6173)

2001-03-29 13:54:22# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna hverju tækifæri sem ég fæ til þess að botna betur í orkuumhverfisstefnu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. En það er að mörgu leyti erfitt. Mig langar til að spyrja hana, vegna þess að hún hefur talað af miklum hroka niður til Bandaríkjamanna sem orkusóða en hafið til skýjanna þær þjóðir sem samþykktu Kyoto-samkomulagið, eftirfarandi spurninga:

Voru niðurstöður Kyoto-bókunarinnar og skuldbindingar hennar raunhæfar?

Treysta ríkin sem samþykktu bókunina án fyrirvara sér til að standa við skuldbindingar sínar um minnkun á útblæstri á CO2?

Umræður í Evrópuþinginu í desember sl. sýna fram á að ESB-ríkin og þingið eru farin að horfa framan í raunveruleikann og átta sig á því að möuleikar sambandsins til þess að standa við skuldbindingar sínar í Kyoto eru að einhverju leyti bundnar við kjarnorkuframleiðslu innan sambandsins og möguleikann á að auka hana. Því væri gaman að fá viðbrögð þingmannsins við þessu.

Í öðru lagi finnst mér þingmaðurinn rugla saman vetni sem orkugjafa og vetni sem tækni til að geyma orku. Það er ekki talað um vetni sem orkugjafa í þessum hugleiðingum um að koma á hinu svokallaða vetnissamfélagi. Það er talað um vetni sem orkugeymslutæki. Sennilega væri ekki síður hægt að framleiða vetni með jarðgasi og líklega er það ódýrasta aðferðin til að famleiða vetni, þ.e. með jarðgasi, en það mun að sjálfsögðu ekkert minnka útblástur.