Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 13:56:12 (6174)

2001-03-29 13:56:12# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti að ég lendi í því að þurfa að svara svipuðum spurningum frá hv. þm. Tómasi Inga Olrich. Auðvitað verður þræta okkar um þessi mál þræta um keisarans skegg.

Hv. þm. segir að ég tali af hroka niður til Bandaríkjamanna sem umhverfissóða. Svar mitt við því er einungis að ég ætla mér ekki að sýna þeirri þjóð hroka fremur en öðrum þjóðum. En ég minni á að meira að segja Japanir, sem hafa unnið við hliðina á Bandaríkjamönnum á vettvangi Kyoto-bókunarinnar, hafa verið með mjög harðorðar yfirlýsingar í garð Bandaríkjamanna vegna þess að Bandaríkjamenn skuli vera að yfirgefa það sem hv. þm. vill kannski kalla sökkvandi skip. Það kemur fram í máli hv. þm. að hann er ekki trúaður á að Kyoto-bókunin sé raunhæf. Evrópusambandið og þjóðir heims hafa vissulega barist við þetta vandamál, hvort Kyoto-bókunin geti verið raunhæf eða ekki. Það er alveg sjálfsagt að við tökum á öflugan hátt þátt í þeirri umræðu.

Þetta var eina ráðið sem menn fundu út árið 1992 og svo aftur 1997 í Kyoto að gæti mögulega leitt okkur eitthvað fram á veginn í þeirri viðleitni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er viðurkennd staðreynd að það er hið einasta sem getur forðað okkur frá þeirri eyðileggingu sem blasir við vegna hlýnunar lofthjúpsins. Það er eina ráðið sem við höfum komið auga á og ég viðurkenni að stjórnmálamenn og ráðamenn þjóðanna í heiminum hafa verið máttlausir gagnvart þessum vanda. Hins vegar má líka segja að þeir hafi ekki tekið á á öllum þeim sviðum sem bókunin sýndi þó fram á að þeir yrðu að gera.