Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:13:14 (6179)

2001-03-29 14:13:14# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svarið. Mér er ljóst að þetta kom fram í skýrslu að hluta til en ekki beint um evruna og evru-áhrifin. Ég gat ekki lesið það beint út heldur er mér alveg ljóst og hefur verið það lengi að til þess að skipta um mynt og yfir í evru, þá fylgir það með aðild að ESB. Ég tel að þau mál séu ekki nándar nærri því nógu vel könnuð og fleiri þurfa að gera það en sú ágæta nefnd sem var hér til umræðu.

Ég hef nefnt hér tvisvar, þrisvar sinnum þetta sérstaka stjórntæki sem Íslendingar hafa, þ.e. verðtrygginguna, og ég hef áhyggjur af því að misgengi sé í verðtryggingunni. Það var reyndar leiðrétt fyrir þremur, fjórum árum. En það er kannski ástæða til þess að skoða þau mál aftur. Ég ræði þetta að sjálfsögðu út frá því að hér er hávaxtastefna. Hávaxtastefnu er haldið á lofti. Og þó svo að horfið hafi verið til baka um hálft prósent vil ég taka undir með þeim sem segja að það skref var of lítið og kannski alveg í síðasta lagi. En það þarf örugglega að stíga til baka mörg slík skref til þess að staða heimilanna hér á landi verði sambærileg við það sem er annars staðar í Evrópu.