Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:15:14 (6180)

2001-03-29 14:15:14# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í málflutningi hv. þm. Gísla S. Einarssonar að hann talaði um að það gæti verið góður kostur að leggja niður krónuna og taka upp evruna, m.a. í því skyni að afnema verðtryggingu, sem væri þá í því fólgið. Ég vil spyrja hv. þm. hvort ekki séu til einfaldari aðgerðir til þess að afnema verðtryggingu á Íslandi en að taka upp evruna, jafnvel áður en við gengjum í Evrópusambandið, sem er nú ómögulegt reyndar.

Í öðru lagi spyrja fulltrúar Samfylkingarinnar í þingsalnum Framsóknarflokkinn mikið um stefnu hans í Evrópusambandsmálum, en minna er hins vegar flutt af tíðindum af Evrópustefnu Samfylkingarinnar og væri nú fróðlegt að fá hv. þm. til að segja okkur nokkur tíðindi af þeim málum, vegna þess að einu sinni var nú svo komið fyrir þeim ágæta Alþýðuflokki að hann var með það á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið, en síðan missti hann það merki niður þegar Samfylkingin var stofnuð og hefur ekki náð því upp aftur. Ég vil því gjarnan spyrja hv. þm. hvort hann geti flutt okkur einhverjar fréttir af Evrópustefnu Samfylkingarinnar?

Að lokum vil ég gjarnan spyrja hv. þm. að hvaða leyti hagkerfi Íslands hefur sömu sveiflur eins og hagkerfi Evrópusambandsríkjanna sem eru í evrusvæðinu, því Bretarnir hafa t.d. talið að þeir gætu ekki gengið í evrusvæðið nema þessar sveiflur væru svipaðar í Bretlandi og þær eru á evrusvæðinu, og það eru þær ekki í dag. Íslenskar sveiflur í efnahagsmálum eru með allt öðrum hætti. Ég vil því gjarnan inna hv. þm. eftir því hvort hann telji að áhrifin verði lík og þau sem evrusvæðið og þróun evrunnar hafði á írskt efnahagslíf þegar verðbólga fór þar úr böndum og var raunar ekki hamin nema vegna þess að þróun á gjaldeyrismarkaði gagnvart Bandaríkjadollar varð aftur hagstæðari fyrir Íra.