Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:19:24 (6182)

2001-03-29 14:19:24# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. þm. Gísla S. Einarssonar að ástæðulaust sé að fara yfir lækinn til að sækja vatn og ganga í ESB til að afnema verðtrygginguna. Það eru til einfaldari leiðir til þess.

Að því er varðar evrusvæðið í heild, þá gætir nú einhvers misskilnings. Sá sem hér stendur var ekki að vitna til Dana í þessum efnum, heldur var hann að vitna til Íra, en írskt efnahagslíf var í miklum uppgangi þegar þeir urðu fyrir því að evrusvæðið í heild veiktist á gjaldeyrismörkuðum og það ýtti mjög undir verðbólguþróun hjá þeim. Það sem dró síðan úr þessu aftur var þróun á gjaldeyrismörkuðum sem skapaði evrunni aðeins sterkari stöðu, en það byggðist á því að staða efnahags Bandaríkjanna var hægt og rólega að veikjast.

Við hefðum getað horft upp á þá þróun að efnahagsstjórn í Írlandi hefði farið úr böndum, eins og fjármálaráðherra Íra lýsti að væri að gerast. Hann tók það skýrt fram að það væri ekkert, bókstaflega ekkert, sem Írar gætu gert til að lagfæra þá stöðu.

Og þá spyr ég: Hvað hefur hv. þm. fyrir sér í því að telja að ríkisfjármálin og heimilin mundu hagnast á því að við Íslendingar misstum öll slík stjórntæki á efnahagsmálum okkar eins og Írar töldu að þeir hefðu misst á þessum tíma?