Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:36:29 (6184)

2001-03-29 14:36:29# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Nokkrir hv. þm. hafa komið inn á það í umræðunni að það sé margt sem þeir sakni í ræðu minni. Þannig hefur það ávallt verið, alveg frá því ég hóf að flytja slíkar ræður fyrir hv. Alþingi. Gefinn hefur verið ákveðinn tími til að fjalla um utanríkismál. Utanrrh. fær 30 mín. til að hafa hér framsögu, aðrir þingmenn fá 15 mín. Eðli máls samkvæmt er engin leið að fjalla um mörg af þeim málum sem ástæða væri til að fara yfir hér á Alþingi. Ekki er þar með sagt að mér sé eitthvað að vanbúnaði að taka í það tíma. Ég taldi hins vegar rétt að fjalla að þessu sinni um hnattvæðinguna og útskýra hvernig ég lít á þau mál, hvað mér finnst skipta máli, sumt með almennum hætti. Það er eins með það umfangsmikla mál að ekki er heldur tími til að vera með nægilega ítarlega umfjöllun á því til að gera öllu skil. Ég vænti þess að menn geti þá rætt í framhaldinu hvort ástæða sé til að taka frekari tíma til umræðu um ýmis mál sem ég hafði ekki möguleika á að fjalla um. En hv. þm. mega hins vegar ekki líta þannig á að utanrrh. eða utanrrn. vilji ekki fjalla um þau. Þetta er takmarkað form og þarf þá að endurskoða það og líta til þess ef menn vilja fá miklu ítarlegri umfjöllun, og það er allt af hinu góða að fara yfir það.

Að öðru leyti vil ég svara ýmsu því sem hv. þm. kom inn á á síðari stigum.