Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:38:43 (6185)

2001-03-29 14:38:43# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Reyndar er það svo að ríkisstjórnin er ekki viljug að taka öll mál hér til umfjöllunar og afgreiðslu og ég minni á enn eina ferðina að þáltill. um Írak hefur ekki fengist tekin til afgreiðslu í þinginu, enda þótt hún hafi verið flutt sjö sinnum.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að ekki er hægt að taka á öllum málum, ég virði það að sjálfsögðu. Útgangspunkturinn í þeirri ræðu sem hér var flutt er alþjóðavæðingin. Það sem ég sakna sérstaklega er að álitamál sem tengjast alþjóðavæðingunni og eru til umfjöllunar innan alþjóðastofnana skuli ekki reifuð betur en hér var gert. Ég vísa til þeirra samninga sem fram fara innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar t.d. um GATT. Ég vísa til þess starfs sem fram fer á vegum OECD. Og ég vísa til afstöðu okkar innan Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til hnattvæðingarinnar. Það er þetta sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna, herra forseti.