Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:01:45 (6190)

2001-03-29 15:01:45# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki í sjálfu sér að setja fram gagnrýni beint á framgöngu stjórnvalda eða íslenskrar utanríkisstefnu sem slíkrar í þessum efnum. Ég var að vísa til þess sem mér fyndist oft vanta í umræðuna um utanríkismál í almennu samhengi, sem hefði haft mikla tilhneigingu á undanförnum missirum til að beinast mjög að þessu eina, þ.e. Evrópusambandinu og tengslunum þangað.

Mér er það vel ljóst og ég fagna því sem vel hefur verið gert í þeim efnum að horfa til annarra átta. Stofnun sendiráðs í Kanada og efld tengsl á nýjan leik, ýmislegt sem tengdist landafundaafmælinu og annað í þeim dúr er jákvætt, norðurheimskautssamstarfið þar sem Íslendingar eru virkir þátttakendur og m.a. hv. þm. Tómas Ingi Olrich nefndi í ræðu sinni og vestnorrænt samstarf sem við höfum vissulega lagt rækt við og ég held að við verðum ekki sökuð um að hafa sýnt neitt tómlæti. Allt er þetta mjög af hinu góða. Ég held hins vegar að líka á þessu sviði sé þörf fyrir og tímabært að fara yfir hlutina og velta fyrir sér þróun þessara mála áfram af okkar hálfu og hvernig við viljum standa að þessum hlutum. Það er það sem ég hef kosið að velja vinnuheitið Íslensk nærsvæðastefna til aðgreiningar frá því sem snýr að samstarfi á stærri svæðum eða heimsvísu. Ég held að einhvers konar mótun svæðishugtaks sem tæki til norðan- og norðvestanverðs Atlantshafsins og byggða á ströndinni beggja vegna Atlantshafsins og eyþjóðanna úti í Atlantshafinu væri verðugt verkefni að vinna að. Í raun byggir þetta dálítið á því að þróa og móta tiltekin svæðishugtök sem ramma af samstarfið í ákveðnum ríkjahópum. Það er það sem gerist með Barentráðinu, Eystrasaltsráðinu o.s.frv. og það var í þessar áttir sem ég var að vísa, herra forseti.