Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:06:15 (6192)

2001-03-29 15:06:15# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist að við hæstv. utanrrh. séum ekki ýkja ósammála um þetta og áttu svo sem ekki að vera efni til. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra reynist hafa rétt fyrir sér og guð láti gott á vita að þeir tímar komi einhvern tíma að Balkanríkin geti farið að vinna saman á einhvern bróðurlegan hátt sem góðir nágrannar. En það verður maður þó að segja þegar maður skoðar stöðuna þar að ansi finnst manni langt í land að ýmsu leyti og kannski endar það þannig að sá gamli refur, Helmut Schmidt, reynist hafa rétt fyrir sér, að þetta svæði eigi a.m.k. 50 ára erfiðleika fram undan.

Varðandi norrænt samstarf þá er hverju orði sannara að það er um margt mjög merkilegt, enda fordæmi víða að og síðan er samstarf sem hefur tengst við það eða vaxið út frá því. Þar vil ég nefna sérstaklega samstarf Norðurlandaráðs og Eystrasaltsríkjanna, baltnesku landanna. En þá verður líka að viðurkennast að það hefur verið talsverður þungi og talsvert mikil áhersla á að horfa út frá norræna samstarfinu í austurátt. Þetta hefur auðvitað verið rætt á vettvangi Norðurlandaráðs og fleiri en bara Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar hafa áhyggjur af þessu. Menn hafa svo sem oft á þessum umliðna áratug sem liðinn er frá því að hlutirnir tóku að breytast haft áhyggjur af því að við kynnum með vissum hætti að vera að einangrast hér svona úti á vesturkanti þessa norræna svæðis.

Mótvægið við það held ég að eigi að vera að efla nærsvæðahugsun og samvinnu þar sem til viðbótar Íslandi, Grænlandi og Færeyjum koma að aðilar eins og Skotland, Kanada, Vestur-Noregur og fleiri, og það er til þess sem ég er að vísa til með Norður- og Norðvestur-Atlantshafssvæðinu. Að þessu gætum við unnið undir formerkjum einhvers sem við kölluðum íslenska nærsvæðastefnu.