Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:28:16 (6196)

2001-03-29 15:28:16# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir að það gagnast lítið að vera með fordæmingar varðandi málefni Palestínu. En svo var að Ísrael átti samúð þjóða í áratugi og ég fullyrði að þeir hafi fyrirgert henni hjá flestum í dag. Það eru bara staðreyndir sem liggja fyrir eftir það sem hefur verið að gerast.

Ég kem upp til að lýsa ánægju minni með þá yfirlýsingu utanrrh. að Ísland muni styðja viðleitni Norðmanna og ég er mjög ánægð að heyra það í ræðu ráðherrans að það hafi verið --- ekki að ég hafi verið að fagna því að það hafi þurft eitthvert frumkvæði gagnvart Norðmönnum. Þeir fara með formennsku í refsiaðgerðanefndinni. En mér finnst það segja ákveðna sögu að stærstu ríki báðu Norðmenn að reyna að leiða tillögugerð í samráði við Sameinuðu þjóðirnar. Það segir manni að það er orðið áhyggjuefni hvernig þessi mál hafa þróast með Írak og það er alveg ljóst að stærstu þjóðir hefðu ekki verið að biðja þá um að reyna að skoða nýjar leiðir nema af því að menn vilja fara nýjar leiðar. Ég held því fram að Ísland geti gert meira en vera með viðleitni. Það getur sýnt pólitískan stuðning í þessu máli. Það er afskaplega undarlegt meðan við teljum okkur öll, og öll þessi lönd, bundin af niðurstöðum öryggisráðsins svo sem eins og með viðskiptabannið, að þá er ljóst að það hefur veikst vegna andstöðu Rússa og Frakka við það. Frakkar hafa verið að fljúga með fólk og e.t.v. gögn og bara tilkynnt það sisvona að nú hafi þeir flogið. Um leið og þetta er farið að gerast þá veikist bannið auðvitað og það veikist af því að menn hafa miklar efasemdir um að nokkurt réttlæti sé í því að halda áfram með svona aðgerðir.