Norræna ráðherranefndin 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:46:15 (6199)

2001-03-29 15:46:15# 126. lþ. 102.2 fundur 543. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2000# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir þessa skýrslu og fyrir ræðu hennar.

Ég verð aftur á móti að lýsa því yfir að mér finnst miður að umræða um skýrslur um alþjóðasamstarfið skuli ævinlega fara fram að lokinni langri utanríkisumræðu. Umræðan um samstarfið, ég vil segja nærsvæðasamstarf okkar, fær þannig hvorki nægilegt kastljós á sig né að í henni taki þátt þeir sem ættu að skiptast hér á skoðunum. Það á ekki að vera þannig að við sem erum í Norðurlandaráði, í Evrópuráðinu eða í öðru erlendu samstarfi eigum að vera í salnum og tala saman. Við þekkjum það sem hefur verið að gerast en umræðunni hér, í þjóðþinginu heima, er ætlað að veita upplýsingar og varpa ljósi á hversu þýðingarmikið samstarfið er fyrir þá sem heima sitja og hafa ekki möguleika á því að kynna sér það nema með því að fylgjast með þennan eina dag á ári hverju sem við ræðum samstarfið.

Þess vegna, herra forseti, óska ég þess og hef sett þá ósk fram áður að einhvern tíma mundum við setja þessar skýrslur um alþjóðastarf fyrst á dagskrána á einhverjum degi þar sem ljóst væri að fólk hefði tíma til að taka þátt í umræðunni og leggja mat á hvort það er þess virði að taka þátt í erlendu samstarfi. Menn mundu þá vonandi gera sér grein fyrir því að með því erum við ekki að eyða peningunum í vitleysu heldur er það veruleg fjárfesting sem skiptir máli fyrir okkur öll.

Ég gerðist bara fyrir örfáum vikum þátttakandi í Norðurlandaráði. Ég hef starfað á vegum þess lengi í gegnum tíðina en ætla ekki að blanda mér í þá umræðu heldur ætla þeim það sem hafa verið þar undangengið ár. Ég hef hins vegar tekið þátt í öðru norrænu verkefni, þ.e. Norræna menningarsjóðnum. Mér finnst því fara vel á því að fara nokkrum orðum um hann og þýðingu hans, ekki síst fyrir okkur á Íslandi, undir þessum lið þegar hæstv. ráðherra hefur farið yfir skýrsluna um samstarfið.

Staðreyndin er sú að Norræni menningarsjóðurinn hefur sennilega meiri þýðingu fyrir okkur hér á Íslandi en fyrir nokkurt hinna Norðurlandanna. Á öllum Norðurlöndunum eru svonefndir tvíhliða sjóðir milli tveggja landa. Þeir eru mjög sterkir á meðan það eru eingöngu fjórir litlir slíkir gagnkvæmir sjóðir milli tveggja landa hjá okkur. Allir fjórir, þessir tveggja landa gagnkvæmu sjóðir, veittu samtals fjármagn upp á 750 þús. danskar krónur til verkefna. Ef við berum það saman við einn af stærstu tvíhliða sjóðunum á hinum Norðurlöndunum, þ.e. menningarsjóð milli Svíþjóðar og Finnlands, þá deildi hann út 8 millj. dönskum krónum, bara þessi eini tveggja landa sjóður. Þetta segir okkur að Norræni menningarsjóðurinn er mjög mikilvægur fyrir Ísland sem á ekki í marga staði að leita eftir stuðningi við menningarverkefni.

Umsóknum um framlög úr þessum sjóði hefur fjölgað um 50% á síðasta áratug. Aukning á því sem sótt er um er upp á 150% fyrir sama tímabil. Um það bil 800 gildar umsóknir berast á hverju ári en það er hægt að verða við óskum u.þ.b. 200 umsækjenda. Við getum aðeins sinnt fjórðungnum. Fjárhæðirnar sem sótt er um eru um 200 millj. en það er hægt að veita 25 millj. Þetta eru nokkurn veginn útlínurnar í Norræna menningarsjóðnum.

Umsóknir frá Íslandi eru um það bil 4% af umfanginu en það er veitt fjármagn til umsókna sem nemur um 6% og fjármagnið fer upp í 12% af því sem veitt er. Við erum þannig að fá gífurlega mikinn stuðning til menningarverkefna á Íslandi úr Norræna menningarsjóðnum. Mér finnst mikilvægt, herra forseti, að koma þessu á framfæri í þessari umræðu.

Eins og þeir sem starfa á þessu sviði vita er sjóðnum ætlað að veita fjármagn til menningarmála, rannsókna og menntamála. Um það bil 90% fara til menningarmála og 5% til hinna tveggja þáttanna. Fyrir utan það að veita fjármagn til verkefna sem sótt er um hefur sjóðurinn sjálfur ákveðið að fara í ákveðin verkefni og nota til þess nokkurt fjármagn, þ.e. að skoða málskilning á Norðurlöndum. Slík rannsókn fór síðast fram árið 1975 og frá því árið 1975 hefur ekki verið gerð nein rannsókn á stöðu tungumálanna hjá þjóðum Norðurlanda. Umræðan á Norðurlöndum um málskilninginn er fremur byggð á tilfinningu og getgátum en raunverulegri rannsókn. Það vantar þekkingu á því hvernig staðan er og hvernig þróunin hefur verið undanfarin 25 ár. Þessi nýja rannsókn mun þannig byggjast á fagrannsóknum frá 1975. Þetta er vísindaleg rannsókn sem sjóðurinn hefur hugsað sér að fara í. Rannsóknin á að ná til karla og kvenna á Norðurlöndum, til landsbyggðar og þéttbýlis, til ólíkra aldurshópa og innflytjenda sem eru ekki norrænir.

Mér finnst þetta mjög mikilvægt verkefni. Evrópuráðið hefur lýst árið 2001 sem evrópskt málár eða tungumálaár. Það var reyndar ekki ástæðan fyrir því að sjóðurinn ákvað að hrinda þessu verkefni af stað. Það var ekki síður umræðan um að sjóðnum væri ætlað að taka fyrir sérstök verkefni og hafa frumkvæði en ekki bara veita fé til einstakra verkefna félagasamtaka eða menningarstofnana. Við höfum hugsað okkur að þetta verkefni gæti hafist í haust og yrði í gangi fram á sumarið 2003. Þetta hefur verið rætt á tveimur fundum í sjóðnum og hefur verið sagt frá því. Mér finnst því full ástæða til þess að segja frá þessu hér.

Auk þessa hefur verið veitt fé til sérstakrar sýningar. Það gerði sjóðurinn nú í ársbyrjun. Þá var nokkuð mikið fé veitt til þess sem kallað er Vestnordisk Fangstkultur og á að varpa ljósi á þróunina í veiðimannasamfélögum Vestur-Norðurlanda. Færeyjar sóttu um fjármagn í sjóðinn til þessa verkefnis en verkefnið á síðan að vera farandsýning sem fer um Norðurlöndin og hugsanlega Eystrasaltslöndin. Þetta er feikilega áhugavert verkefni sem var mikils virði að fá fjármagn til úr sjóðnum og í umræðum um það kom aftur upp áhugi á því að veita árlega fjármagn til slíkra sérstakra sýninga. Það verður jafnframt skoðað í sjóðnum.

Ég lít á þetta sem nýjungar í starfinu, a.m.k. á þeim tíma sem ég hef verið í sjóðnum. Fyrst og fremst kom ég hingað, herra forseti, til að veita upplýsingar um verkefni Menningarsjóðs Norðurlanda og hversu gífurlega þýðingarmikill hann er fyrir menningarlíf okkar á Íslandi.