Norræna ráðherranefndin 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:56:01 (6200)

2001-03-29 15:56:01# 126. lþ. 102.2 fundur 543. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2000# skýrsl, JB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar aðeins að víkja að einu máli sem hefur verið unnið að á forsendum samþykktar ráðherranefndar Norðurlanda um áætlanir um verndun menningarminja og annars menningararfs sem skyldi vera einn af þremur meginþáttum umhverfisverndar. Landvernd hefur m.a. tekið upp á sína arma að fylgja því máli eftir. Á grundvelli samþykktarinnar er hafin vinna, þ.e. ákveðin áætlanagerð og hafa skapast væntingar í sambandi við verndun menningarminja og búsetu í Árneshreppi á Ströndum. Þar hafa bæði verið unnar áætlanir, tillögur og gerð ýmiss konar úttekt af heimafólki í samráði við Landvernd og fleiri aðila. Einnig hefur verið unnið, að því að ég best veit, í samstarfi og samráði við ráðherra í ríkisstjórninni. Einstökum ráðherrum sem þar eiga hlut að máli hefur í framhaldi af þessari vinnu og áætlanagerð verið ritað bréf þar sem óskað hefur verið eftir stuðningi við framhald á verkinu á grundvelli samþykktarinnar sem hæstv. ráðherra vitnaði einmitt til í ræðu sinni.

Ég vil ítreka það sem hæstv. ráðherra vék að, að verndun menningarminja verði nátengd samfélögum og búsetu. Ég vil árétta að það er eitt þýðingarmesta verkefni samtímans fyrir framtíðina. Sú áætlun og þær hugmyndir sem unnið hefur verið að í tengslum við verkefnið í Árneshreppi tel ég að mörgu leyti nýstárlegar og fyllilega ástæðu til að þeim sé fylgt eftir, þær unnar frekar og þá í nánu samráði við heimafólk eins og verið hefur. Verkefnið hefur einnig kveikt ákveðnar væntingar sem sjálfsagt er að hafa í huga.

Sjálfsagt eru fleiri samfélög hér á landi sem búa að merkilegri menningararfleifð en íbúar í þessum eina hreppi. Mér er það ljóst en engu að síður er staðan sú að þarna er virkilega þörf á að taka á með heimafólki við að standa vörð um þann menningararf og það samfélag sem þarna er. Það er afar þýðingarmikið fyrir landsmenn alla.

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra sé kunnugt um starfið sem þarna hefur verið lagt af stað með. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hún, sem ráðherra Norðurlandamála og samstarfsaðili á þeim vettvangi og sem ráðherra í ríkisstjórninni sem hefur þetta mál á borðum, lítur á stöðu þessa máls og framvindu þess.