Norrænt samstarf 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:05:00 (6203)

2001-03-29 16:05:00# 126. lþ. 102.3 fundur 571. mál: #A norrænt samstarf 2000# skýrsl, Frsm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Frsm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Í ræðu minni kynni ég skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf. Norrænt samstarf er eitt allra mikilvægasta samstarf Íslands við erlend ríki, enda er löng hefð fyrir því. Það hefur reyndar komið fram í ræðum í dag um utanríkismál. Ég stikla á stóru í ræðu minni en einstaka þingmenn sem sitja í Íslandsdeild munu væntanlega kynna störf sín í Norðurlandaráði í umræðunni. Skýrsluna í heild sinni er að finna á þskj. 880 en þetta er 571. mál þessa þings.

Frá árinu 1995 hefur Norðurlandaráð starfað á þremur meginsviðum, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Auk þess starfar sérstök eftirlitsnefnd og forsætisnefnd í Norðurlandaráði. Frá árinu 1995 var flokkastarf aukið og forustuhlutverk Norðurlandaráðs eflt. Ráðið heldur árlega þing, þ.e. Norðurlandaráðsþing, sem er æðsti vettvangur ráðsins. Þá eru haldnar sérstakar þemaráðstefnur þar sem fyrir eru tekin ákveðin meginviðfangsefni norrænnar samvinnu.

Enn eru skipulagsmál til umræðu í Norðurlandaráði og fer reyndar gríðarlegur tími og orka í þær umræður. Aldamótanefndin svokallaða var sett á fót 1999 undir forustu Jóns Sigurðssonar, forstjóra Norræna fjárfestingarbankans og fyrrv. iðn.- og viðskrh. Starf nefndarinnar hefur ýtt undir þessa umræðu en skýrsla nefndarinnar var kynnt og tekin fyrir á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í nóvember sl.

Skýrsla aldamótanefndarinnar verður tekin til ítarlegrar meðferðar innan ráðsins nú í ár. Gert er ráð fyrir að tekin verði ákvörðun um framtíðarskipulag Norðurlandaráðs og norrænnar samvinnu á 53. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn nú í haust.

Ísland átti forseta ráðsins á síðasta ári en Sigríður Anna Þórðardóttir stýrði starfi Norðurlandaráðs sem forseti frá 1. janúar ársins 2000 fram til áramóta og var hún landi og þjóð til mikils sóma, enda stóð hún sig með miklum ágætum sem forseti ráðsins.

Herra forseti. Næst sný ég mér að starfi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Í byrjun ársins skipuðu Íslandsdeildina þau Ísólfur Gylfi Pálmason, Sigríður Jóhannesdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Sighvatur Björgvinsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Hjálmar Jónsson og Steingrímur J. Sigfússon. Varamenn voru Árni Johnsen, Rannveig Guðmundsdóttir Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller og Þuríður Backman. Hinn 2. október 2000 voru þingmennirnir endurkjörnir til setu í Norðurlandaráði og á fundi Íslandsdeildarinnar daginn eftir var Ísólfur Gylfi Pálmason kjörinn formaður og Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður.

Á 51. þingi ráðsins í Stokkhólmi í nóvember 1999 voru Sigríður A. Þórðardóttir, Sighvatur Björgvinsson og Ísólfur Gylfi Pálmason kjörin til setu í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Hjálmar Jónsson í nærsvæðanefnd, Arnbjörg Sveinsdóttir í Evrópunefnd og eftirlitsnefnd, Sigríður Jóhannesdóttir í Norðurlandanefnd og Steingrímur J. Sigfússon í Norðurlandanefnd. Á forsætisnefndarfundi í Jevnaker 9. desember 1999 var sú breyting gerð á skipan í nefndir að Steingrímur J. Sigfússon var færður úr Norðurlandanefnd í Evrópunefnd að ósk flokkahóps vinstri sósíalista. Þessi nefndarskipan hélst út starfsárið 2000.

Alls kom Íslandsdeild Norðurlandaráðs saman til sjö formlegra funda auk margra óformlegra funda formanns, varaformanns og ritara. Á fundum voru ráðstefnur og fundir undirbúnir en stærsta verkefni Íslandsdeildar var undirbúningur og framkvæmd 52. Norðurlandaráðsþings sem haldið var 6.--8. nóvember sl., en þingið tókst í alla staði mjög vel. Íslandsdeild hélt einn fund með samstarfsráðherra Norðurlanda, Siv Friðleifsdóttur. Þar var m.a. rætt um Norðurlandaráðsþing, tillögur til norrænu fjárlaganna 2001 og Hallo Norden sem er upplýsingasími á vegum Norðurlandaráðs. Þá hélt nefndin fund með fulltrúum upplýsingaskrifstofu Norðurlandaráðs, norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaskrifstofu forsrn. Þar var m.a. farið yfir upplýsingamál, útgáfustarfsemi, heimasíðu, samskipti við fjölmiðla og samstarf landsdeilda. Það má í raun og veru segja að upplýsingakerfið hafi verið stóreflt á árinu 2000.

Íslandsdeild þáði boð Norðurlandaráðs um að senda tvo þingfulltrúa á ráðstefnuna Barn Forum II en hv. þm. Hjálmar Jónsson, sem sat í nærsvæðanefnd og Sigríður Jóhannesdóttir, sem sat í Norðurlandanefnd, tóku þátt í þeirri ráðstefnu auk fimm íslenskra ungmenna á aldrinum 18--25 ára. Þessi ungmenni voru Sif Sigmarsdóttir, Kjartan Ólafsson, Bára Mjöll Þórðardóttir, Katrín Júlíusdóttir og Margrét Helga Ögmundsdóttir.

Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar 15. júní 2000 en samanlagt var styrkupphæðin sem kom í hlut Íslendinga 90 þúsund danskar krónur. Óvenjufáar umsóknir bárust um styrkina og var því unnt að veita öllum umsækjendum styrk að þessu sinni. Eftirtaldir fréttamenn hlutu styrki: Brynhildur Þórarinsdóttur hlaut 100.000 kr, Broddi Broddason 95.000 kr., Eiríkur Stefán Eiríksson 100.000 kr., Pálmi Jónasson 135.000 kr., Helgi Þorsteinsson 100.000 kr. og Reynir Traustason og Róbert Reynisson saman 300.000 kr. Ekki er ljóst hvers vegna svo fáar umsóknir bárust þetta árið en auglýsing styrkja var hefðbundin. Hins vegar telur Íslandsdeildin rétt að endurskoða fyrirkomulag auglýsingar um fréttamannastyrki fyrir árið 2001 þannig að tryggt sé að náð verði til enn stærri hóps fréttamanna.

Í skýrslu Norðurlandaráðs er næst vikið að starfi forseta ráðsins og mun hv. 3. þm. Reykn., Sigríður A. Þórðardóttir, gera grein fyrir því hér á eftir.

Næst vík ég að starfi nefnda Norðurlandaráðs en forsætisnefnd Norðurlandaráðs er skipuð 12 fulltrúum flokkahópa sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs og allir flokkahópar eiga fulltrúa í nefndinni. Hlutverk nefndarinnar er að hafa umsjón með starfseminni og fjallar nefndin á milli þinga um tillögur sem beint er til nefndarinnar.

Af hálfu Íslandsdeildar sátu í nefndinni Sigríður A. Þórðardóttir frá flokkahópi hægri manna, hún stýrði einnig starfi nefndarinnar, Ísólfur Gylfi Pálmason frá flokkahópi miðjumanna og Sighvatur Björgvinsson frá flokkahópi jafnaðarmanna.

Forsætisnefnd hélt alls sjö fundi á árinu og fór þar að auki í opinbera heimsókn til Moskvu. Forsætisnefndin fjallaði m.a. um skýrslu aldamótanefndarinnar ,,Norðurlönd 2000 -- umvafin vindum veraldar``. Ákveðið var að verðlaun Norðurlandaráðs verði frá árinu 2002 afhent við eina og sömu athöfnina en áður hafa verið þrjár athafnir tengdar verðlaunaafhendingu.

Forsætisnefnd hélt aukafund á Hvolsvelli í maí og fjallaði um fjárlög Norðurlandaráðs en á þann fund mætti m.a. Sören Christensen, framkvæmdastjóri norrænu ráðherraskrifstofunnar. Nefndin kynnti sér starfsemi Sögusetursins á Hvolsvelli og var gerður góður rómur að þeirri heimsókn. Forsætisnefnd tók ákvörðun um undirbúning 50 ára afmælis Norðurlandaráðs. Gefin verður út sérstök afmælisbók sem geymir sögu Norðurlandaráðs frá árinu 1978--2002 auk ritgerða eftir stjórnmálamenn. Ráðið mun standa fyrir fjölmörgum atburðum í tilefni afmælisins, svo sem ritgerðarsamkeppni, átaki í upplýsingamálum, eflingu norrænnar menningar, kynningarstarfsemi o.fl. Einnig munu landsdeildir standa fyrir atburðum hver í sínu landi í samstarfi við norrænu ráðherranefndina, norrænu félögin og norrænu húsin í viðkomandi löndum. Ákveðið hefur verið að halda þemaráðstefnu á Íslandi árið 2002 í tilefni afmælisins.

[16:15]

Forsætisnefnd hefur fjallað um endurbætt upplýsingakerfi ráðsins og kynningarblaðið Politik i Norden hefur verið stækkað og kemur út fjórum sinnum á ári. Upplýsinganefnd forsætisnefndar var lögð niður en Rannveig Guðmundsdóttir sat í þeirri nefnd. Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlafræðingur er upplýsingafulltrúi Norðurlandaráðs.

Komið var á fót vinnuhópi til að fjalla um skýrslu aldamótanefndarinnar. Sighvatur Björgvinsson sat í þeirri nefnd fyrir hönd jafnaðarmanna. Breytingar hafa verið gerðar á nefndinni og nú situr Sigríður A. Þórðardóttir í henni fyrir hönd hægri manna í Norðurlandaráði. Vinnuhópurinn skilar skýrslu og tillögum um mitt þetta ár.

Í Norðurlandanefnd sat Sigríður Jóhannesdóttir, varaformaður Íslandsdeildar, og mun hún gera grein fyrir störfum nefndarinnar á eftir. Á sama hátt sat Hjálmar Jónsson í nærsvæðanefnd og Steingrímur J. Sigfússon sat í Evrópunefnd en Arnbjörg Sveinsdóttir sat í eftirlitsnefnd eins og áður segir.

Næst vík ég að verðlaunum Norðurlandaráðs en þrenn verðlaun eru veitt af hálfu Norðurlandaráðs. Bókmenntaverðlaun féllu í skaut danska skáldsins Henriks Nordbrandts fyrir ljóðabókina Drömmebroer. Tónlistarverðlaun hlaut finnska tónskáldið Kaija Saariaho en náttúru- og umhverfisverðlaun hlutu umhverfissamtökin Bellona í Noregi, en þau verðlaun voru einmitt afhent á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík í nóvember sl.

Næst vík ég að ráðstefnum á vegum ráðsins. Alls voru fimm málþing haldin á vegum Norðurlandaráðs. Þau fjölluðu m.a. um baráttuna gegn eiturlyfjum. Það málþing var haldið í Helsinki. Þá var og haldið málþing um líftækni og lífsiðfræði í Stokkhólmi. Einnig var haldið málþing um menntamál í Ósló og svæðasamstarf í Torneå og að lokum var haldin ráðstefna eða málþing um kynþáttafordóma í Vesterås, en mikil umræða er um kynþáttafordóma á Norðurlöndum og heilmikið rætt m.a. um starf nýnasista og ýmislegt sem tengist fordómum í garð erlendra íbúa á Norðurlöndum.

Þemaráðstefna Norðurlandaráðs árið 2000 var haldin í Kristjánsborg 6. og 7. mars undir yfirskriftinni Þekking og framfarir á Norðurlöndum --- stefnumótun fyrir 21. öldina. Markmið ráðstefnunnar var að draga fram meginspurningar eins og um eflingu Norðurlanda sem þekkingar- og hagvaxtarsvæðis, nýtingu nútímatækni til að auka menntun og atvinnutækifæri í dreifbýli, vinnumarkað framtíðarinnar og lífsgæði. Norræna ráðherranefndin stóð fyrir málþingi um evruna og norrænu velferðarríkin í Kaupmannahöfn í júní sl.

52. þing Norðurlandaráðs var haldið, eins og áður greinir, 6.--8. nóvember árið 2000 í Háskólabíói í Reykjavík. Þetta var í níunda sinn sem þingið er haldið á Íslandi. Íslandsdeild Norðurlandaráðs og alþjóðasvið Alþingis höfðu veg og vanda af undirbúningi og skipulagi og allri framkvæmd þingsins ásamt starfsmönnum Alþingis. Framkvæmd og skipulag tókst með miklum ágætum og er hlutaðeigandi aðilum þakkað af alhug.

Meginefni þingsins auk hefðbundinna þingstarfa var Norðurlöndin og grannsvæðin og hvernig fylgja beri eftir tilmælum Norðurlandaráðs um samkeppnishæf Norðurlönd, lífsiðfræði og öryggi matvæla. Einnig var fjallað um stefnu í félags- og heilbrigðismálum innan Norðurlanda og Norðurlönd án landamæra.

Næst vík ég að kosningum í nefndir og ráð fyrir árið 2001 á 52. þingi Norðurlandaráðs. Miðvikudaginn 8. nóvember fóru fram kosningar í nefndir og kjör forseta Norðurlandaráðs. Forseti var kjörinn danski þingmaðurinn Svend Erik Hovmand og tók hann við embættinu 1. janúar 2001. Sighvatur Björgvinsson var kjörinn til setu í forsætisnefnd, Sigríður A. Þórðardóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Sigríður Jóhannesdóttir í Norðurlandanefnd, Arnbjörg Sveinsdóttir var kjörin í Evrópunefnd og eftirlitsnefnd, Steingrímur J. Sigfússon í Evrópunefnd og Hjálmar Jónsson var kjörinn í grannsvæðanefnd. Þá var Hjálmar Jónsson kjörinn til setu í kjörnefnd. Ísólfur Gylfi Pálmason var kjörinn til setu í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans fyrir tímabilið 1. maí 2001 til 30. apríl 2003. Rannveig Guðmundsdóttir var kjörin í stjórn Norræna menningarsjóðsins og Steingrímur J. Sigfússon til vara.

Að kosningum loknum voru umræður um fjárlög fyrir árið 2001.

Á þinginu var ákveðið að halda 53. Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn í 44. viku ársins 2001.

Með skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs eru fylgiskjöl á bls. 13 og 14, alls 35 atriði um tilmæli, álit og ákvarðanir frá 52. þingi ráðsins.

Herra forseti. Í lok ræðu minnar vil ég þakka fulltrúum Íslandsdeildar fyrir einstaklega gott samstarf. Fyrrverandi forseta Norðurlandaráðs þakka ég sérstaklega gott samstarf og einnig þakka ég varaformönnum Íslandsdeildar fyrir gott samstarf. Skýrsla Íslandsdeildar nær til 1. febrúar þessa árs. Síðan hefur Sighvatur Björgvinsson látið af þingmennsku og hætt störfum á Alþingi og einnig í þágu Norðurlandaráðs, en Sighvatur var mjög virkur, reyndur og áhugasamur um störf í Norðurlandaráði og hafði unnið þar um langa hríð. Í stað Sighvats kemur Rannveig Guðmundsdóttir en hún hefur víðtæka reynslu af störfum ráðsins og er Rannveig sérstaklega boðin velkomin til starfa.

Að lokum þakka ég starfsmönnum alþjóðadeildar Alþingis, sérstaklega þó Einari Farestveit sem hefur verið ritari ráðsins á síðasta ári, en hann lætur brátt af störfum.

Með þessum orðum læt ég lokið ræðu minni um skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir árið 2000.