Norrænt samstarf 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:33:25 (6205)

2001-03-29 16:33:25# 126. lþ. 102.3 fundur 571. mál: #A norrænt samstarf 2000# skýrsl, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hjá hv. síðasta ræðumanni kom fram að samstarf Norðurlandaþjóðanna væri afar mikilvægt og að mikilvægt væri að þjóðirnar stæðu þétt saman. Ég geri alls ekki lítið úr mikilvægi þess en spyr hv. þingmann hvort rætt hafi verið innan Norðurlandaráðs eða á þeim vettvangi um mikilvægi þess að norrænar þjóðir stæðu saman annars staðar þar sem um samstarf er að ræða. Í Evrópuráðinu, á þingum og á ráðstefnum um hin ýmsu málefni, m.a. á sviði umhverfismála, hefur dregið verulega úr þessu samstarfi, sem var mjög náið áður. Það heyrir nánast til undantekninga ef haldnir eru sameiginlegir norrænir fundir um einhver sérstök mál til að mynda norræna samstöðu. Evrópusambandið spilar örugglega þar inn í en ég vil fá að heyra hjá hv. þm. hvort þetta hafi verið rætt og þá hvort einhver niðurstaða hafi fengist. Hefur Norðurlandaráðsþingið beint því til þingmanna sem starfa annars staðar eða embættismanna að standa fyrir auknu samstarfi Norðurlandaþjóðanna á öðrum sviðum en þarna?