Norrænt samstarf 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:35:01 (6206)

2001-03-29 16:35:01# 126. lþ. 102.3 fundur 571. mál: #A norrænt samstarf 2000# skýrsl, SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi mál hafa vissulega verið rædd innan Norðurlandaráðs og á vettvangi forsætisnefndar þess. Það er alveg ljóst að þarna þurfum við að gera betur. Þetta hefur reyndar áður verið rætt hér í þinginu. Ég man að fyrir nokkrum árum þegar rætt var um samstarf Norðurlandanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þá virtist það staðreynd að dregið hefði úr því eftir að Svíþjóð og Finnland gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Síðan hafa menn lagt áherslu á að lagfæra þetta á ný.

Hins vegar er ljóst að framtíð norrænnar samvinnu verður til umfjöllunar á næstu mánuðum og þá verða m.a. þessi mál á dagskrá. Ég þori að fullyrða að hjá Benelúx-löndunum er um mjög náið samstarf að ræða. Þar fara menn ofan í smæstu smátriði jafnvel þó að þau lönd séu t.d. öll aðilar að ESB. Það kemur ekki í veg fyrir samstarfið. Ég veit ekki til þess að þau hafi á neinn hátt hugsað sér að draga úr sínu samstarfi. Það er engin spurning að Norðurlöndin hafa tækifæri í málum þar sem þau eru samstiga til þess að eiga mjög náið samstarf á alþjóðlegum vettvangi. Ég hvet svo sannarlega til þess.

Hins vegar vil ég líka lýsa því að það hefur einnig verið rætt mjög mikið um að það þyrfti að tengja betur saman fagnefndir þjóðþinganna við aðra starfsemi á vegum Norðurlandaráðs.