Norrænt samstarf 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:37:19 (6207)

2001-03-29 16:37:19# 126. lþ. 102.3 fundur 571. mál: #A norrænt samstarf 2000# skýrsl, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi orð en ítreka að hagsmunir þessara ríkja fara ekki saman að sama skapi og þeir gerðu áður. Það hefur verið dálítið erfitt að horfa upp á það hvernig upp úr því nána samstarfi sem var milli Norðurlandaþjóðanna hefur flosnað, t.d. innan Evrópuráðsins og reyndar á þingum þar sem embættismenn koma saman, á ráðstefnum og annars staðar þar sem samstarfið var mjög náið. En það er ekki þannig lengur. Í Evrópuráðinu er nánast eina formlega samstarfið sem Norðurlandaþjóðirnar hafa fólgið í sameiginlegu og notalegu kokteilboði einu sinni á ári. Við þurfum að komast upp úr því fari til þess að hægt sé að taka á þessum málum.

Noregur og Ísland eru orðin dálítið sér á parti sem norrænir samstarfsaðilar annars vegar og hins vegar eru Evrópusambandslöndin þar sem hinar Norðurlandaþjóðirnar taka þátt. Ég held að það væri vel þess virði að leggja aukna áherslu á þetta innan Evrópuráðsins og Norðurlandaráðsins, þ.e. hvernig þingmenn vinna saman á þessum vettvangi. Ég er sannfærð um að sérstaklega innan Evrópuráðsins væri hægt að ná enn meiri árangri ef Norðurlandaþjóðirnar ynnu meira saman en þær gera.