Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 15:21:54 (6215)

2001-04-02 15:21:54# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson flytur hér örstutt frv. til þess að draga inn í þingið deilur um skólahald í Hafnarfirði og gera tortryggilega tilraun sem bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eru að reyna að gera í skólastarfi sínu. Sú tilraun er samkvæmt útskýringum bæjaryfirvalda í Hafnarfirði gerð undir nákvæmu eftirliti sveitarstjórnarmanna og skólamálayfirvalda á svæðinu. Það er engin hætta á því að farið sé út fyrir þau lög eða þann ramma laga sem tryggir að allir hafi jafnan rétt til náms eða að sú námskrá sem er í gildi sé ekki kennd. Þessi upphróp og köll, uppboð á börnum og úlfur, úlfur, eiga í því engan rétt á sér. Hins vegar hefur ekki tekist hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að gera þetta nægilega tortryggilegt að honum virðist þannig að hann leggur málið fyrir þingið.

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort hv. þm. sé almennt á móti því að reynt sé að leita nýrra leiða við rekstur stofnana. Við vitum að einu sinni þótti ekki við hæfi að háskólar væru reknir af öðrum en sveitarfélögum en háskólar eru bæði reknir af einkaaðilum og ríkissjóði í dag. Alls konar sérskólar, t.d. Verslunarskólinn hefur verið rekinn af einkaaðilum á hverjum tíma með góðum árangri. Samvinnuskólinn var rekinn með ákveðnu formi. Það eru til fjöldi dæma sem sýna að félagasamtök, einkaaðilar og aðrir geti gert hlutina ágætlega eftir þeim reglum sem til eru án þess að hætta sé búin fyrir neytendur.