Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 15:24:06 (6216)

2001-04-02 15:24:06# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það þjónar miklum tilgangi að eiga orðastað við hv. þm. um þessi efni. Þetta grautarlega andsvar hans bar þess merki að hann hafði ekki heyrt eitt einasta orð sem ég sagði í framsöguræðu minni.

Hann heldur áfram að bera saman epli og appelsínur. Ég lagði einmitt ríka áherslu á að hér væri ekki um valkvæða þjónustu að ræða, líkt og á háskólastigi eða framhaldsskólastigi, heldur grundvallarmenntun. Kveðið er á um að börn hafi þann rétt að sækja grunnskólamenntun á aldrinum 6--16 ára en jafnframt hvílir á þeim og forráðamönnum þeirra sú skylda að börnin mæti í skóla. Á þessu tvennu er auðvitað reginmunur.

Herra forseti. Ef svo er að hér sé í raun engin áhætta á ferð, engin breyting og þetta sé allt undir formerkjum opinberra aðila, sveitarfélags í þessu tilfelli, hvers vegna á þá að ráðast í útboð á þessum þætti? Í því liggur kjarni málsins. Það er verið að bjóða út þessa þjónustu. Væntanlega, miðað við venjubundinn rekstur, fær lægstbjóðandi að sinna þjónustunni. Markaðshyggjan, markaðsvæðingin, lögmálið um framboð og eftirspurn hefur haldið innreið sína í grunnskólann í landinu. Ég vil árétta, herra forseti, að þetta er ekkert sérmál Hafnfirðinga að ræða. Hér er hæstv. menntmrh. að brjóta í blað og ég gef mér það að komist hann upp með þetta þá geri hann hið sama í öðrum sveitarfélögum. Það eru mörg sveitarfélög sem ég horfi á með talsverðum áhyggjum í því sambandi, m.a. heimahérað hv. þm. þar sem sömu flokkar ráða ríkjum.