Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 15:46:42 (6220)

2001-04-02 15:46:42# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða hvort stjórnvöldum landsins sé heimilt að framselja það vald til sveitarstjórna, sem eiga að sjá um grunnskólakennslu í landinu, að setja þar á fót sérstaka einkavæðingu. Sem meðflutningsmaður þessa frv. er ég auðvitað algerlega andvígur þeirri tilraun sem svo er kölluð. Hér er í raun og veru verið að gera tilraunir með það sem mér finnst að allir foreldrar og allir nemendur eiga að geta gengið út frá og það er að eins sé staðið að grunnskólakennslunni alls staðar í landinu.

Á fólk sem býr í hverfi þar sem á að taka upp slíkt fyrirkomulag eitthvert val eða var því kynnt það þegar það settist að í hverfinu að svona mundi verða haldið á málum? Ég held að það sé alveg óásættanlegt að gera hlutina eins og hæstv. menntmrh. hefur sagt að hann vildi gera. Þess vegna tel ég að það frv. sem við flytjum sé mál sem þurfi að fara mjög fljótt í gegn ef koma á í veg fyrir þær fyrirætlanir stjórnvalda að taka upp einkavæðingu í grunnskólakennslunni. Skyldu menn t.d. ætla að útfæra þetta í einu þorpi úti á landi þar sem menn eiga akkúrat ekkert val? Er það allt í lagi þar sem aðeins einn grunnskóli er, að menn geti líka stigið slíkt skref þar? Það má kannski segja um þennan skóla í Hafnarfirði að fólk eigi þó eitthvert val í næsta nágrenni. Samt hlýtur réttur fólks að vera sá að geta gengið út frá því að það sé ekki að fara inn á neitt sérstakt tilraunasvæði óafvitandi. Það hlýtur að eiga kröfu til þess fyrir fram, áður en það sest að í viðkomandi hverfi, að vita að til standi að standa svona að málum. Þess vegna held ég að þessi túlkun hæstv. menntmrh. á lögunum sé algerlega óásættanleg og sú stefnumörkun að grunnskólinn skuli vera tekinn út og gerður að sérstöku einkavæðingarfyrirbæri í menntakerfinu er mál sem við í Frjálslynda flokknum erum andvígir.