Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:13:51 (6225)

2001-04-02 16:13:51# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég blanda mér nú ekki í innanbúðarmál þeirra hv. þm. sem búsettir eru í Hafnarfirði, það er auka\-atriði. En þessi sérkennilega og endurtekna spurning hv. þm. sýnir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast ekki tilbúnir til að ræða efnislega um þetta mál, þ.e. um útboðið á rekstri skólans. Það hefði verið nær að hv. þm. reyndi að færa rök fyrir því að þessi leið tryggði það á einhvern að foreldrarnir kæmust nær rekstrinum. (Gripið fram í.) Ég var að reyna, herra forseti, að koma því að í ræðu minni að ég sæi ekki að nokkuð í þessari leið tryggði aðgang foreldra að skólunum. Ég sagði líka að til væru ótal leiðir til þess að tryggja þann aðgang innan kerfisins sem nú er, að bæta og auka aðgang foreldra að skólunum. Það er hins vegar ekki til umræðu hér sem slíkt.

Ég benti einnig á það í ræðu minni að hæstv. menntmrh. hefði notað aukinn aðgang foreldra sem rök fyrir því að fara þessa leið. Ég ítreka hins vegar að það er ekkert við þessa leið sem tryggir að foreldrar hafi betri aðgang að skólunum. Það út af fyrir sig ekki til umræðu hér. Við gætum vissulega farið í gegnum alla þá umræðu en það verður bara að bíða síns tíma. Það getur vel verið að gera þurfi einhverjar breytingar, sem ég sé þó ekki að þurfi að gera, á grunnskólalögum til að tryggja þennan aðgang foreldra. Þar er gert ráð fyrir því að hægt sé að stórauka hann. Ég get bætt því við að sú leið að færa grunnskólann til sveitarfélaganna fannst mér býsna stórt skref í þá átt að færa grunnskólann nær foreldrum.

Hér er hins vegar verið að boða allt aðra leið sem þess vegna gæti jafnvel fært grunnskólann, það er hægt að færa rök fyrir því, fjær vettvangi. Ef við ætlum að fara að láta einhverja bisnessmenn úti í bæ, sem enginn veit í hvaða bæ eru staddir, sjá um grunnskólahaldið þá held ég að við gætum verið á mjög hættulegri braut.