Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:29:01 (6227)

2001-04-02 16:29:01# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. starfandi menntmrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa yfir nokkurri undrun minni með þær breyttu áherslur, satt að segja, sem kveður nú við í þessari umræðu og maður hefur svo sem heyrt áður af hálfu hæstv. menntmrh. í tilvitnuðu bréfi hans til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði. Nú var reynt að gíra öll þessi merku áform niður. Nú er útboð á kennslu grunnskólabarna orðið aukasetning í öllu ferlinu. Nú er þetta orðið eitthvað allt annað. Nú á ekki að spara nokkra peninga á þessu. Nú er ábyrgðin í engu hjá væntanlegum verktaka, heldur er það bæjarsjóður Hafnarfjarðar í þessu tilfelli eða þá sveitarfélög almennt í sambærilegum tilfellum sem bera hina fjárhagslegu ábyrgð, ábyrgð á kennsluþættinum, málskotsrétturinn fellur á sveitarfélagið. Í minni sveit var þetta einu sinni kallað pilsfaldakapítalismi. Herra forseti. Hefur orðið áherslubreyting í miðju kafi eða hvað er á ferð? Þessar nýju áherslur Sjálfstfl. í málinu eru í engu samræmi við þau gögn sem væntanlegir bjóðendur hafa undir höndum og ég er hér með og ég get látið hæstv. ráðherra hafa þar sem öll venjubundin lögmál markaðarins eru í heiðri höfð, nefnilega ,,eðlilegur`` hagnaður, lægstbjóðandi, þ.e. fjárhagslegar forsendur ráða 40% af þeim forsendum sem dregnar eru þegar val á verktaka er ákveðið. Hér eru öll lögmál með venjubundnum hætti. Hér kveður við allt annan tón þegar hæstv. ráðherra og þeir sjálfstæðismenn vilja núna vera láta að hér sé ekkert nýtt á ferðinni, hér sé svona hefðbundinn pilsfaldakapítalismi. (Forseti hringir.) Þá er ég hættur að skilja. Hefur hér orðið breyting? Hafa menn skipt um hest í miðri á?