Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:31:30 (6228)

2001-04-02 16:31:30# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Það er nokkur annar tónn sem nú heyrist hjá sjálfstæðismönnum í þessu máli. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. starfandi menntmrh. að í bréfinu frá 6. mars 2001 er vissulega talað mikið um ábyrgð sveitarfélaga. Ég benti á nokkur atriði í ræðu minni áðan og ég held að ég verði að ítreka spurningu mína og hafa hana kannski örlítið skýrari en áður. Hún er um það að í þessu títtnefnda bréfi segir m.a. að lögin um réttindi og skyldur skólastjórnenda í grunnskólum eigi að gilda varðandi þetta svokallaða útboð og þar segir með öðrum orðum að sveitarfélagið sé vinnuveitandi og starfsmennirnir þar af leiðandi starfsmenn sveitarfélagsins. Eða hvað, hæstv. dómsmrh., er eitthvað annað þar í pípunum?

Ég vil segja, herra forseti, að það sé raunverulega ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu vilyrði menntmrh. til Hafnarfjarðarbæjar um heimildina til að bjóða út skólastarf við Áslandsskóla en að kennarar og skólastjórnendur verði starfsmenn bæjarsins og það þýðir að þá hlýtur að vera að tryggja eigi þeim starfsmönnum bæjarins nákvæmlega sömu lífeyrisréttindi og aðrir kennarar og skólastjórnendur hafa á grunnskólastiginu.

Herra forseti. Mér er því spurn og ég vona að hæstv. ráðherra geti svarað því: Hvernig eiga einkaaðilar að tryggja slíkt? Eða er það réttur skilningur minn að þessir starfsmenn verði áfram starfsmenn bæjarsins? Og þá er spurning: Til hvers er þessi leikur gerður?