Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:33:43 (6229)

2001-04-02 16:33:43# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er með þrjár spurningar sem ég vil beina til hæstv. ráðherra. Hæstv. starfandi menntmrh. sagði að þetta mál okkar mundi væntanlega fá vandaða meðferð í menntmrn. Í fyrsta lagi: Mun ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn beita sér fyrir því að þeirri umfjöllun verði hraðað og málið komi aftur til kasta þingsins áður en gengið verður frá tilboðum varðandi Áslandsskóla?

Í öðru lagi: Bent hefur verið á að þessi einkarekni skóli geti boðið nemendum úr öðrum hverfum til sín og þá muni opinberir aðilar fjármagna þetta. Reyndar var bent á þetta á þingi Framsfl. Ég gagnrýndi framsóknarmenn áðan í ræðu minni, en það voru framsóknarmenn, ég held það hafi verið hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem benti á þá hættu sem því fylgdi að hinn einkarekni skóli mundi reyna að laða til sín nemendur sem ættu auðvelt með nám. Hefur hæstv. starfandi menntmrh. áhyggjur af þessu?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það við núverandi fyrirkomulag sem kemur í veg fyrir nýbreytni og þess vegna tilraunastarfsemi innan skólans? Hvað er það við núverandi rekstrarform sem kæmi í veg fyrir slíkt? Þetta eru þær spurningar sem ég vona að hæstv. starfandi menntmrh. svari í andsvari.