Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:35:43 (6230)

2001-04-02 16:35:43# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði hér þriggja spurninga. Í fyrsta lagi hver yrði meðferð málsins í hv. menntmn.

Ég get að sjálfsögðu ekki svarað því, en ég veit að í þeirri nefnd fá frv. og þingmál vandaða meðferð. Ég treysti því að svo verði líka í sambandi við þetta frv. En það eru væntanlega hv. þm. sem eiga sæti í nefndinni sem hafa stjórn á því máli.

Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort ég hefði áhyggjur af því að unnt yrði að bjóða nemendum úr öðrum hverfum til skólavistar í þessum skóla, m.a. með tilliti til námsárangurs.

Svar mitt við þeirri spurningu er nei. Ég hef ekki áhyggjur af því.

Í þriðja lagi spurði hv. þm.: Hvað er það við núverandi fyrirkomulag sem kemur í veg fyrir nýbreytni í skólastarfi?

Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þm. að víða í lögum um grunnskóla sé ákvæði sem geri einmitt ráð fyrir því að teknar séu upp nýjungar í skólastarfi. Reyndar er tiltölulega stutt síðan mjög vönduð löggjöf var sett á þessu sviði og mér finnst það fagnaðarefni. En ég tek það fram að þetta er lýðræðislega kjörin stjórn í sveitarfélagi, í Hafnarfjarðarbæ, sem er að innleiða nýjung í skólastarfi og ég tel að það eigi fyllilega rétt á sér.