Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 16:52:54 (6233)

2001-04-02 16:52:54# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er dálítið sérkennileg umræða sem hér fer fram um skólamál. Hún er sérkennileg fyrir þátttökuleysi stjórnarliða sem ætla má, miðað við viðveru þeirra hér og þátttöku í umræðunni, að hafi ekki mikinn áhuga á þróun skólamála í landinu. Hún er líka sérkennileg þegar litið er til þess hvernig hún hófst og síðan hvert þeir sem voru formælendur breytinganna virðast hafa hrakist.

Herra forseti. Miðað við það sem manni sýnist þegar hafa gerst kæmi ekki á óvart að niðurstaðan yrði sú í Áslandsskóla að öll hin spennandi nýbreytni endaði í því að ráðinn yrði rekstrarstjóri við hliðina á skólastjóranum. Mér sýnist undanhaldið vera á þeirri leið, herra forseti. Og skyldi engan undra. Við erum að tala um túlkun á grunnskólalögum og jafnvel þó að um sé að ræða lýðræðislega kjörna sveitarstjórn þá er það svo að þrátt fyrir kjör sitt hafa þeir ekki leyfi til að fara á svig við lögin í landinu. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan á Alþingi gert til þess kröfu aftur og aftur að þessi mál yrðu rædd, að svör fengjust við því hvernig hægt var að komast að þeirri niðurstöðu að 53. gr. grunnskólalaganna segði að fara mætti þá leið sem hér er fyrirhugað að fara.

Það svar hefur í sjálfu sér ekki fengist enn. Það mun ekki fást í þessari umræðu að mér virðist. Fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. menntmn. gerðu tilraunir til þess að fá málið rætt faglega þar, kölluðu eftir því að fulltrúar úr menntmrn. kæmu til fundar við nefndina til að útskýra hvernig menn hefðu komist að slíkri niðurstöðu. Það fékkst ekki. Vísað var m.a. á það þingmál sem hér liggur fyrir. Nú er það komið til umræðu en svörin fást eigi að heldur.

Þess vegna er auðvitað mjög mikilvægt, herra forseti, að málið fáist rætt sem fyrst í hv. nefnd og að þá gefist kostur á þeirri þinglegu meðferð sem formaður nefndarinnar, sem jafnframt er þingflokksformaður Sjálfstfl., gaf hér að mér virtist fyrirheit um í umræðu sem efnt var til um störf þingsins til að kalla eftir því hvernig menn ætluðu sér að vinna þetta mál, hvernig ætti að gefa þinginu kost á því að fara yfir það og fá svör við því hvernig sú niðurstaða var fengin að 53. gr. grunnskólalaganna gæti leyft þá nýbreytni sem hér er verið að fjalla um.

Herra forseti. Í umræðu um þessa tilraun sem menn eru að vonast til að geta sett á í Áslandsskóla hefur gjarnan verið talað um spennandi nýjungar í skólastarfi. Við sem þekkjum skólastarf af margra ára reynslu höfum eðlilega lagt við hlustir vegna þess að ljóst er að bæði skólamenn og ekki síst foreldrar eru áhugasamir um að til verði enn betri grunnskóli, að til verði skóli á Íslandi sem foreldrar geti verið sáttari við en verið hefur vegna þess að íslenski grunnskólinn hefur verið í ákveðinni kreppu. Bæði er það svo að hér hefur skóladagur verið styttri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og sömuleiðis eru skóladagar færri. Þetta hefur verið, herra forseti, vegna þess að við höfum ekki verið tilbúin til að greiða jafnmikið fyrir menntun og þau lönd sem við berum okkur þó saman við eins og nágrannalöndin og það munar bara allnokkru. Reyndar hafa sveitarfélögin, eftir að þau tóku við rekstri grunnskólans, bætt mjög myndarlega í og knúið á við ríkisvaldið að fá til þess meira fé sem að hluta til hefur tekist. En eigi að síður erum við ekki enn komin með þann grunnskóla sem við viljum börnum okkar til handa.

Þess vegna hlusta menn auðvitað eftir því þegar talað er um spennandi nýjungar í skólastarfi. Reyndar er verið að gera spennandi tilraunir víða og mjög víða er verið að vinna afskaplega gott starf sem getur nýst okkur til framtíðarþróunar grunnskólans.

En ég hygg að fáir hafi áttað sig á því að þarna var ekki verið að tala um skólastarf. Það var ekki verið að tala um innra starf skólans, ekki hið hefðbundna skólastarf sem menn tala gjarnan um, sem foreldrar ræða sín í milli á vinnustöðum og þeir sem hafa verið kennarar eða áhugasamir foreldrar taka þátt í umræðum um. Nei, verið var að tala um rekstur, það var verið að tala um fjármálahliðina. Eins og hér var ágætlega rakið af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur eru auðvitað ýmis ákvæði og setningar í útboðsgögnum sem benda til þess að þarna hafi menn haft hugmyndir um að fara með skólann á svipaðan hátt og hvert annað fyrirtæki, gleyma því að um börn og viðkvæmt starf er að ræða en keyra áfram á þeim forsendum sem ættu kannski vel við í kexverksmiðju.

Svo gerist það óvænta að upplýst er hér að þetta er samt ekki gert til að spara. Það á að geta orðið fjárhagslegur árangur og skólinn á að geta sýnt nægilegan hagnað auk alls annars kostnaðar, þetta er ekki gert til að spara.

[17:00]

Herra forseti. Þetta er mjög sérkennilegt og í rauninni vantar okkur, eins og ég hóf mína ræðu á, öll rök fyrir því hvernig menn geta samrýmt svona ævintýri 53. gr. grunnskólalaga. Það er svo, herra forseti, að ef menn fara yfir lögin um grunnskóla þá eru ákvæði um undanþágur frá einstöku atriðum þar, 53. gr. er auðvitað undanþágugrein, en síðan geta menn fengið undanþágur eins og gerist hér í 26. gr. þar sem vísað er í að þær aðstæður geti komið upp að með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum geti menntamálaráðherra veitt tímabundna undanþágu frá þeim ákvæðum sem gilda um skólaskyldu.

Hvað skyldi það vera, herra forseti, sem má veita undanþágu frá og hana tímabundna? Jú, það er t.d. ef ekki er hægt að starfrækja skóla í viðkomandi skólahverfi og hann er þá starfræktur annars staðar með samstarfi sveitarfélaga. ,,Með hliðsjón af atvinnuháttum`` er verið að vísa í kennsludaga og starfstíma grunnskóla. Þarna er hægt að sýna ákveðinn sveigjanleika og ég hygg að við séum öll sammála um það.

Þegar fjallað er um skyldu sveitarfélags til að halda skóla fyrir börn er ekki hægt að finna nokkurt ákvæði í lögunum sem veitir undanþágu frá því. Ég er nokkuð viss um, herra forseti, að ef það hefði nokkurn tíma verið hugsun löggjafans að slíkt mætti gerast þá hefði það verið nefnt í lagagreininni rétt eins og í þeirri sem ég var að fara yfir áðan, 26. gr. En það er ekki gert og þar með er eðlilegt að álykta sem svo að ekki sé beinlínis gert ráð fyrir því og þess vegna stendur sú krafa sem hér er sett fram að fjallað verði um það frv. sem hér liggur fyrir svo fljótt sem verða má í hv. nefnd og síðan áfram í þinginu og þá vonandi, herra forseti, með þátttöku þeirra sem ætla sér að bera ábyrgð á þeirri túlkun sem hæstv. menntmrh. hefur leyft að fram fari á 53. gr. grunnskólalaganna.

Herra forseti. Menn hafa verið að bera saman og verja þessa túlkun með því að vísa í leikskólalög eða vísa í að í leikskólum sé þetta með tilteknum hætti. Þar er kannski komið að öðru atriði, sem menn hafa e.t.v. ekki glöggvað sig nægjanlega á, sem er að það er ólíku saman að jafna, grunnskóla og leikskóla.

Þegar um grunnskóla er að ræða erum við að tala um skólaskyldu sem er algild. Sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir börn og unglinga og síðan er börnum og forráðamönnum þeirra skylt að standa þannig að málum að barnið sæki skóla, þ.e. bæði fræðsluskylda og skólaskylda og skólaskyldan er í tiltekinn skóla. Áslandsskóli er eða verður hverfisskóli sem er þá þannig að öll börn í því hverfi eiga að ganga í þennan skóla. Hann er því ekki einkaskóli í þeim skilningi, þ.e. skóli sem foreldrar geta þá valið hvort þeir senda börn sín í eða ekki, og eftir skilningi okkar því ekki lagaheimild til að fara þá leið sem fyrirhugað er.

Varðandi leikskólana er þessu allt öðruvísi farið. Í fyrsta lagi er ekki skólaskylda í leikskóla. Foreldrar geta valið hvort þeir senda börnin sín í leikskóla eða ekki og í sumum tilfellum í hvaða leikskóla. Í öðru lagi er heimilt, skv. 7. gr. laga um leikskóla, að fela öðrum rekstur leikskólans. Þar er að finna heimild sem er auðvitað allt annað mál en í grunnskólalögunum. En í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er öðrum aðilum að reka leikskóla að fengnu samþykki viðkomandi sveitarstjórnar.``

Ég held að hv. þm. ættu ekki að nota þetta til samanburðar því að hér eru menn að bera saman epli og appelsínu og það væri meira gagn að því fyrir umræðuna að menn héldu sig við lögin um grunnskóla --- og nú er ég kannski að tala til þeirra stjórnarliða sem hafa lítillega tekið þátt í umræðunni með andsvörum --- og að reyna að freista þess að útskýra hvað getur legið því til grundvallar að menn sjá í 53. gr. möguleika á þeirri rekstrarnýbreytni sem hér hefur verið lýst með tilvitnun í útboðsgögn.