Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 17:10:43 (6235)

2001-04-02 17:10:43# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Nú er senn að ljúka umræðu um þingmál sem allir stjórnarandstöðuflokkarnir standa sameiginlega að, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn. Við lítum svo á að verið sé að fjalla um grundvallaratriði. Við gerðum um það samkomulag við stjórn þingsins að þessi umræða skyldi ekki standa lengur en rúmar tvær klukkustundir. Ástæðan fyrir því að við gerðum þetta samkomulag um mál sem full ástæða er til að taka til mun ítarlegri umfjöllunar og umræðu en nemur þessum tíma er sú að við viljum hraða því sem kostur er að koma málinu til þingnefndar sem geti kallað fagaðila til fundar við sig og leitað eftir álitsgerðum sem víðast að úr samfélaginu og þinginu gefist síðan kostur á að taka afstöðu til málsins.

Við erum að fjalla um grundvallaratriði í skipulagi velferðarþjónustunnar og íslenskri stjórnsýslu og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að hraða málinu. Að mínum dómi væri alveg fráleitt og fullkomið ábyrgðarleysi og ólýðræðisleg vinnubrögð í ofanálag að ætla að ganga frá þessu tilboði eða þessari leyfisveitingu til Hafnarfjarðar endanlega áður en þingið hefur sagt sitt síðasta orð. Ég vona að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn virði vönduð og lýðræðisleg vinnubrögð meira en svo að þessum óskum okkar verði ekki fullnægt.