Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 17:12:50 (6236)

2001-04-02 17:12:50# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[17:12]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Stjórnarandstaðan hefur staðið þétt saman í þeirri umræðu sem hér á sér stað um grundvallaratriði íslenskra stjórnmála og fært fram rök sín með öfgalausum, málefnalegum og gildum rökum.

Ég átti hins vegar satt að segja von á því að Sjálfstfl. mundi nýta það tækifæri og það ráðrúm sem hér gæfist til þess að tala fyrir þessu draumalandi sínu, einkavæðingu grunnskólanna í landinu, og fara mikinn gagnvart þessum nýjungum í þróun grunnskólanna og reyna að draga upp þá mynd sem flokkurinn virðist hafa fyrir framan sig af björtum og betri dögum í grunnskólum landsins með því að markaðsvæða grunnskólana.

En á því hefur auðvitað ekki borið, alls ekki. Hér hafa fulltrúar flokksins í stuttum andsvörum og hæstv. starfandi menntmrh., með því að lesa bréf Björns Bjarnasonar, hæstv. menntmrh., reynt að tæpa á aukaatriðum, snúa út úr meginatriðum máls og í raun og sanni að gíra málið niður og láta líta út fyrir að hér sé allt annað á ferðinni en texti á útboðsblaði segir til um. Þetta undrar mig talsvert þó að ég skilji það og skynji á hinn bóginn að Sjálfstfl. er undir í þessari málefnalegu umræðu, hann er rökþrota, hann hefur ekki svör við skýrum og einföldum spurningum er lúta að grundvallarlögmálum. Hann áttar sig á því að ekki stemmir saman þegar í öðru orðinu er talað um markaðsvæðingu og útboð og að verktaki hafi eðlilegan hagnað af verkinu þá eigi sveitarfélagið heldur ekki að hafa neina peningalega hagsmuni yfir að ráða vegna slíks útboðs. Í því ljósi er ósköp eðlilegt að menn spyrji: Til hvers er þá leikurinn gerður? Það er ákaflega sérkennilegt líka að þessir sömu málsvarar markaðsvæðingar í grunnskólum landsins skuli allt í einu tala um það að ábyrgðin liggi eftir sem áður öll á hendi opinberra aðila. Þá hafa menn auðvitað gagnspurt og sagt: Hver er þá ábyrgð verktakans í öllu málinu? Hér hafa því margar spurningar vaknað sem mér finnst að talsmenn þessara sjónarmiða hafi í litlu reynt að gera grein fyrir enda vandaverk.

[17:15]

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég árétta og tek undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að ég lít þannig til að um það sé allgóð sátt hér þvert á flokka að þetta mál fái fljóta og hraða afgreiðslu í menntmn. en jafnframt ítarlega þannig að hægt verði að afgreiða málið á vorþingi. Auðvitað gefur maður sér það, þegar um jafnmikla lagalega óvissu er að ræða og raun ber vitni í þessu máli um heimild ráðherra til að heimila slíkt útboð og slíka starfsrækslu skóla, að í engu verði málinu hreyft fyrr en Alþingi hefur kveðið upp svör sín. Ég hlýt að líta þannig til að hv. þm. fagni því allir sem einn, á hverri skoðun sem þeir annars eru, að þeir fái tækifæri til þess á hinu háa Alþingi að greiða atkvæði um grundvallaratriði íslenskra stjórnmála.

Rétt að lyktum, þá hygg ég að framsóknarmenn hljóti að fagna því alveg sérstaklega í ljósi þeirra nýlegu yfirlýsinga, skýru og augljósu, á flokksþingi þeirra fyrir hálfum mánuði. Þar eru tveir lykilmenn innan búðar í menntmn., Ólafur Örn Haraldsson og Kristinn H. Gunnarsson, sem hafa fjálglega lýst skoðunum sínum til málsins og andstöðu sinni við þá rekstrarlegu breytingu sem er innan seilingar og væntanleg í Hafnarfirði ef ekki verður snögglega komið í veg fyrir slíkt stórslys.

Herra forseti. Ég er því ánægður með að hér hefur rökum verið haldið til haga og vonandi mun þessi umræða á hinu háa Alþingi gefa nauðsynlegt veganesti inn í þá faglegu umræðu og virku afgreiðslu sem ég vænti að menntmn. muni inna af hendi á næstu dögum og vikum.