Útbreiðsla spilafíknar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 17:32:45 (6238)

2001-04-02 17:32:45# 126. lþ. 103.3 fundur 250. mál: #A útbreiðsla spilafíknar# þál., 380. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (söfnunarkassar) frv., 381. mál: #A söfnunarkassar# (viðvörunarmerki o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[17:32]

Guðmundur Árna Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir hófstillta og málefnalega kynningu á þessum þremur málum, frumvörpum og till. til þál. er lúta að aðgerðum til varnar útbreiðslu spilafíknar. Ég vil láta það koma fram að mér hefur fundist tillöguflutningur á fyrri þingum, í þá veruna að banna með öllu spilakassa, ekki til þess fallinn að takast á við þetta vandamál. Ég hef í fyrsta lagi verið þeirrar skoðunar að slíkt mundi eingöngu leiða til þess að færa vandann neðan jarðar, færa hann úr kastljósinu og undan því eftirliti sem nauðsynlegt er. Í annan stað hef ég eindregið verið þeirrar skoðunar að rekstur spilakassa, happdrætta af þessum toga og getraunastarfsemi sé hvergi betur fyrirkomið en hjá þeim aðilum sem hafa haft hana með höndum. Þá á ég við rekstur Íslenskra spilakassa sem að standa Landsbjörg, SÁÁ og Rauði krossinn. Ég tel engin önnur samtök betur til þess fallinn til að standa með vitibornum og ábyrgum hætti að rekstrinum.

Tekjur af þessu renna til góðra málefna. Hér er hins vegar gerð tillaga um það í frv. um breytingar á lögum um söfnunarkassa að þeir sem reka þessa starfsemi greiði kostnað við að stemma stigu við fíkninni. Sumpart er það þó svo að þeir sem hafa reksturinn með höndum hafa með ýmsum hætti brugðist við þeirri fíkn sem því miður er til staðar í okkar samfélagi eins og öllum öðrum og hefur verið um langan aldur. Ég tel því að þessi verkefni séu í höndum réttra aðila. Ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við að allir þeir sem eru ábyrgir fyrir slíkum rekstri axli sitt. Mér finnst raunar vanta, sjálfsagt væri að skoða það, að íþróttahreyfingin sé gerð jafnábyrg fyrir rekstri knattspyrnugetrauna eins og þeir aðilar sem hér hefur aðallega verið rætt um. Ég hef trú á því að viðkomandi séu tilbúnir að axla þá ábyrgð enda hafa þeir reynt að gera það.

Það er sérstakt fagnaðarefni að Íslenskir söfnunarkassar kynntu fyrir nokkrum dögum könnun sem þeir létu gera á umfangi, eðli og inntaki spilafíknar á Íslandi. Niðurstaða þeirrar könnunar svarar auðvitað ekki öllum spurningum og vekur kannski upp nýjar. Þetta framtak er þó viðleitni í þá átt að vekja málefnalega umræðu um þetta vandamál og reyna að bregðast við því.

Ég man ekki betur en að ég hafi heyrt að eitt þeirra atriða sem Íslenskir söfnunarkassar urðu sammála um að gera að eigin frumkvæði hafi verið að hækka aldursmörk úr 16 árum í 18 ár. Mér finnst það mjög til fyrirmyndar og vænti þess að aðrir á þessum vettvangi muni íhuga slíkt hið sama.

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu en vil þakka hv. flutningsmönnum fyrir að nálgast þetta mál með eilítið hófstilltari hætti en verið hefur. Ég tel einfaldlega að almennt bann á starfsemi af þessum toga mundi aldrei ná fram að ganga. Það hlyti þá að ná yfir línuna. Í þessari könnun, sem er auðvitað takmörkunum háð, er m.a. leitt í ljós að spilafíkn er af ýmsum toga. Það eru einkaveðmál af ýmsum toga í heimahúsum sem auðvitað verður aldrei komið í veg fyrir. Spilafíknin virðist fá útrás eftir öllum mögulegum og ómögulegum leiðum ef þannig mætti orða það. Ég segi því enn og aftur að ég er samþykkur því að þingmenn, hið háa Alþingi í samstarfi við hlutaðeigandi aðila sem hafa að minni hyggju rekið málið af ábyrgð reyni með öllum tiltækum ráðum að halda þessum vanda í böndum og sjái til þess að þeir sem verða spilafíkninni að bráð eigi í víst hús að venda ef þeir þurfa og vilja leita sér hjálpar.