Útbreiðsla spilafíknar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 17:38:15 (6239)

2001-04-02 17:38:15# 126. lþ. 103.3 fundur 250. mál: #A útbreiðsla spilafíknar# þál., 380. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (söfnunarkassar) frv., 381. mál: #A söfnunarkassar# (viðvörunarmerki o.fl.) frv., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir undirtektir hans við þessi þingmál. Ég lít svo á að ég hafi alltaf tekið á hófstilltan hátt á þessum málum. Ég hef bent á að spilafíknin hafi valdið miklum erfiðleikum og hörmungum í lífi margra. Fjölskyldur hafa flosnað upp og fíknin hefur leitt til sjálfsvíga og um það höfum við því miður mörg dæmi.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að bregðast eigi við þessu með því að banna þessar spilavélar. Mér finnst eðlilegt að það sé gert. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson segir að þá væri hætta á því að þetta færðist neðan jarðar. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Við erum ekki sammála um það en hér er lagt til að menn kanni hvernig hægt er að taka á þessum vanda.

Hv. þm. sagði að þeir sem reka þessa kassa hafi gert það af ábyrgð, tekið á þessum málum á vitiborinn hátt eins og ég held reyndar að hann hafi orðað það. Ég get ekki tekið undir það, því miður.

Í desember sl. beindu áhugamenn um varnir gegn spilafíkninni því til aðstandenda þessara kassa að þeim yrði lokað í jólamánuðinum í ljósi þeirra erfiðleika sem þeir kölluðu yfir margar fjölskyldur. Við því skelltu aðstandendur þessara kassa skollaeyrum. Sannast sagna hefur mér fundist málflutningurinn, t.d. í kjölfar þessarar könnunar, ekki alltaf hafa verið ábyrgur.

Ég vil að það komi skýrt fram, ekki síst í ljósi yfirlýsinga frá aðstandendum þessara kassa um að tölur sem m.a. ég hef sett fram á þinginu séu rangar eða vefengjanlegar, að ég stend við allar þær tölur sem settar eru fram í viðkomandi þinggögnum. Eins og ég benti á áðan eru þær staðfestar í könnuninni sem Gallup gerði. Þær eru staðfestar þar þannig að það er ekkert ofsagt í greinargerðum sem við höfum sett frá okkur um þessi mál.

Mér finnst það góðs viti að hér hefur kviknað hreyfing sem ætlar að beita sér í þessum málum, hreyfing áhugamanna um varnir gegn spilafíkninni. Það var allfjölmennur hópur sem m.a. stóð fyrir ráðstefnu sem haldin var á Hótel Sögu skömmu fyrir síðustu áramót, ætli það hafi ekki verið í lok nóvember eða í byrjun desember, þar sem bandarískur kunnáttumaður á þessu sviði, Arnold Wexler, var fenginn hingað til lands til þess að flytja erindi, fræða okkur um reynslu Bandaríkjamanna af spilafíkninni og á hvern hátt þeir tækju á þeim málum. Mér finnst góðs viti að þessari hreyfingu skuli vera að vaxa ásmegin. Ég heyri úr þeim röðum að menn ætla ekki að láta staðar numið fyrr en tekið hefur verið á þessum málum á ákveðinn og ábyrgan hátt. Það finnst mér fagnaðarefni.