Vetraríþróttasafn

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 18:09:31 (6245)

2001-04-02 18:09:31# 126. lþ. 103.8 fundur 273. mál: #A vetraríþróttasafn# þál., Flm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem hér er lögð fram snýr að því að skipuð verði nefnd sem undirbúi stofnun og rekstur safns vetraríþrótta. Ég ætla ekki að hafa hér langt mál en aðeins að geta um aðalatriðin.

Ég tel að safn sem hýsi minjar, gripi og um leið sögu vetraríþrótta í víðasta skilningi sé þjóðþrifamál, bæði vegna þeirrar sögu sem við viljum halda til haga og einnig til að varðveita margvíslega muni sem nú geta farið forgörðum. Hér er auk þess um mikilvægt mál að ræða þegar við horfum til ferðaþjónustu. Ég vil að það komi fram að í þessari þáltill. er bent á að safnið verði á Akureyri. Ég tel eðlilegt að þetta safn verði á Akureyri vegna þess að þar er miðstöð vetraríþrótta. Þar er hefð fyrir vetraríþróttum frá fornu fari. Við eigum að sjálfsögðu ekki að togast á um þetta eða fara í kjördæmareiptog um málið. Við eigum að styrkja Akureyri að þessu leyti og þjappa saman málum sem tengjast vetraríþróttum.

Þá kann margur að spyrja: Hvað telst til vetraríþrótta? Að sjálfsögðu er hér um að ræða skíði og skíðaíþróttina, en undir það fjalla skautaíþróttir og nýtísku vetraríþróttir sem tengjast vélum af ýmsu tagi.

Saga skíðaíþrótta á Íslandi, bæði sem snýr að rennslisskíðum eða brekkuskíðum og gönguskíðum, er mjög stutt. Enn eru á meðal okkar menn og konur sem muna, kannski ekki alla sögu skíðaíþrótta á landinu en muna jafnvel eftir frumkvöðlunum eins og L. H. Möller og fleiri. Enn eru á meðal okkar menn sem fóru fyrstu leiðangrana á gönguskíðum um hálendi Íslands. Enn eru á meðal okkar menn og konur sem muna eftir Geysisslysinu og leiðöngrunum inn á Vatnajökul. Enn er að finna skíði og skíðabúnað af ýmsu tagi og sem betur fer hefur sá merki maður, og vil ég minnast hans og heiðra minningu hans, Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi tekið saman gríðarmikinn fróðleik um þetta efni.

Tíminn flýgur hratt og áður en við vitum eru sagnir og minningar horfnar með hverri kynslóð sem gengur. Þess vegna tel ég mikilvægt að við bregðumst fljótt við, jafnvel þó að við komum ekki slíku safni á í allri þeirri vídd og af öllum þeim krafti sem talað er um í þessari þáltill. Hins vegar er strax hægt að fara að safna ýmsum þeim minjum, munum og sögnum sem ekki verður hægt að ná til eftir skamman tíma. Með þessu móti væri strax hægt að ná utan um þá þætti sem gætu annars runnið okkur úr greipum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að lokum að minnast á þátt ferðaþjónustunnar í þessu máli. Safn fyrir vetraríþróttir á Akureyri mundi tvímælalaust glæða og lífga ferðaþjónustuna á Akureyri. Þar væri hægt að koma fyrir munum og minjum í myndrænu formi ásamt því að mununum væri bjargað frá glötun. Þessu mætti koma svo fyrir að þeir sem sækja Akureyri heim, bæði vegna skíðamennsku og af öðrum ástæðum, sækist eftir að skoða safnið. Fyrirmyndir eru nægar um söfn af þessu tagi. Ég vil nefna hin frægu söfn og myndarlegu sem við sjáum og eigum aðgang að í Noregi.

Virðulegi forseti. Ég hef þetta mál ekki lengra en vænti þess að virðuleg menntmn., sem fær þetta til umfjöllunar, líti á þetta sem framfaramál, enda hef ég fengið mjög ríkan stuðning frá ýmsum sem hafa kynnt sér málið og að sjálfsögðu ekki síst frá Akureyri. Ég veit að þar eru einstaklingar og samtök sem ekki munu láta sitt eftir liggja og munu styðja verkefnið.