Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 18:31:21 (6247)

2001-04-02 18:31:21# 126. lþ. 103.10 fundur 311. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (náttúrugripasöfn) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur í stað 1. flm. þessa máls, Einar K. Guðfinnsson, sem er fjarverandi. Flutningsmenn ásamt mér og Einari K. Guðfinnssyni eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Árni Steinar Jóhannsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli, III. kafli, og kaflafyrirsögn verði: Náttúrugripasöfn með tveimur nýjum greinum. Það eru tvær nýjar greinar, 15. gr. og 16. gr. sem koma inn í lögin og hljóða svo:

,,Ráðherra er heimilt, í tengslum við náttúrufræðisetur og náttúrustofur sem starfræktar eru, að styðja við rekstur sýningarsafna um náttúrufræði, enda séu söfnin í eigu héraðsnefnda, sveitarfélaga eða annarra heimaaðila. Slíkum söfnum er heimilt að starfa í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, sbr. 8. gr., og náttúrustofur, sbr. 11. gr. Leita skal umsagnar viðeigandi náttúrustofu eða náttúrufræðiseturs áður en ákvörðun um fjárstuðning er tekin.``

Ný 16. gr. hljóðar svo:

,,Styrkur ráðherra til sýningarsafns takmarkast við laun forstöðumanns í fullu starfi og stofnkostnað vegna húsnæðis, innréttinga og bóka- og tækjakaupa eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni, enda liggi fyrir trygging um jafnhátt framlag frá heimaaðilum. Nú starfar sýningarsafn í leiguhúsnæði og fer þá með sama hætti um greiðslu kostnaðar. Framlag ríkissjóðs vegna stofnkostnaðar er bundið því skilyrði að þær eignir sem teljast til stofnkostnaðar séu einvörðungu nýttar í þágu safnsins nema fyrir liggi samþykki ráðuneytisins um annað.``

Með frv. þessu fylgir síðan greinargerð. 2. gr. er eingöngu um að lögin taki þegar gildi og svofelld greinargerð fylgir frv.:

,,Hliðstætt frv. var flutt á síðasta þingi en var þá eigi útrætt og er því flutt að nýju. Í fyrra frv. var miðað við stuðning við náttúrugripasöfn í hverju hinna eldri kjördæma. Með því að kjördæmaskipan hefur verið breytt er lagt til að stuðningurinn sé takmarkaður við söfn er starfi í tengslum við náttúrufræðisetur og náttúrustofur, en þessar stofnanir eru starfandi í hverju hinna eldri kjördæma.

Megintilgangur þessa frv. er að veita heimild til þess að unnt sé að styðja fjárhagslega við uppbyggingu náttúrugripasafna á landsbyggðinni. Starfræksla slíkra safna getur haft margháttaðan tilgang og horfir til framfara og heilla, ekki síst fyrir starfsemi á landsbyggðinni.

Á nokkrum stöðum hefur verið unnið af myndarskap að slíkri uppbyggingu. Víðast hvar hefur hún farið fram án stuðnings ríkisvaldsins. Þó munu þess dæmi að náttúrugripasöfn hafi notið fjárhagslegs stuðnings ríkisins. Hér er lagt til að þessi stuðningur verði skipulegur og samræmdur. Með stuðningi ríkisvaldsins við uppbyggingu safna af þessum toga má vænta þess að betur verði staðið að málum og á metnaðarfyllri hátt en áður.

Á sínum tíma var uppbygging starfsemi náttúrustofa á landsbyggðinni lögfest. Sú stefnumótun hefur gefist ágætlega. Vel hefur verið að uppbyggingunni staðið, heimamenn hafa komið myndarlega að verki og fræðilegur metnaður er mikill. Í lögunum er gert ráð fyrir að starfssvið náttúrustofanna sé víðtækt sem er skynsamlegt í ljósi þess hversu samþætt starf þeirra er verkefnum sem unnið er að hverju sinni úti um landið.

Uppbygging náttúrugripasafna fellur einkar vel að þeirri grundvallarhugsun sem náttúrustofur og náttúrufræðisetur eru byggð á. Er því leitað fyrirmynda að frumvarpstextanum í lögunum um náttúrustofur. Því er lagt til að söfnin starfi í tengslum við stofurnar og náttúrufræðisetur þar sem það á við. Þar með má segja að komið sé á eins konar tengingu við þá starfsemi sem fram fer að einhverju leyti á náttúrustofunum og í náttúrufræðisetrunum.

Auðvelt ætti líka að vera að sérhæfa þessa starfsemi á ýmsum svæðum og tengja jafnvel vísinda- og rannsóknastarfi sem fram fer í byggðunum. Þannig er unnt að tvinna saman á lifandi hátt vísindastarf og daglegt líf og efla um leið áhuga fólks á því merka þróunarstarfi.``

Herra forseti. Ég hef mælt fyrir þessu máli og hef lokið máli mínu.