Villtur minkur

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 18:44:48 (6249)

2001-04-02 18:44:48# 126. lþ. 103.11 fundur 334. mál: #A villtur minkur# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[18:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um eyðingu villts minks og rannsóknir á minkastofninum víkur að máli sem hefur verið alvarlegt mál í lífríki landsins. Eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson gerði grein fyrir í framsögu sinni er minkurinn aðskotadýr í íslenskri náttúru. Þrátt fyrir að hann hafi verið hér og lifað villtur um nokkra áratugi er fjarri því að hann hafi lagað sig að íslenskri náttúru og haldi drápslöngun sinni í skefjum og innan marka sem gæti gert hann umberanlegan. Það er því afar mikilvægt að efla rannsóknir á hegðun og útbreiðslu minksins og einnig er mikilvægt að styrkja og efla veiðar og leiðir til þess að hefta útbreiðslu hans. Ég hygg þó, herra forseti, að það sé nokkuð djúpt í árinni tekið með tilliti til þáltill. að eyða honum alveg, en það megi halda honum niðri og að takmarka útbreiðslu hans og draga úr skaðsemi hans í lífríkinu tel ég afar mikilvægt. Við þekkjum dæmi um eyjar á Breiðafirði sem voru áður iðandi í fugli en eru nú orðnar fugllausar eða fugl hefur þar ekki varplönd lengur vegna þess að minkurinn hefur komið þar og eyðilagt. Við þekkjum líka þann vanda margra sveitarfélaga sem er orðin fámenn og með litlar tekjur að þau hafa engin tök á að standa undir þeim kostnaði ein sér eða með litlum stuðningi sem hlýst af því að eyða mink eða verja ákveðin landsvæði fyrir ágangi minks. Þess vegna víkur þessi tillaga, herra forseti, að afar mikilvægu máli sem er nauðsynlegt að taka á, bæði hvað varðar rannsóknir á minknum, hegðan hans í umhverfinu og eins hvernig megi hefta útbreiðslu hans og draga úr skaðlegum áhrifum hans í lífríkinu.