Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 14:32:59 (6260)

2001-04-03 14:32:59# 126. lþ. 104.22 fundur 540. mál: #A almenn hegningarlög# (kynlífsþjónusta, klám) frv., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Einungis vegna þess að hér hefur verið getið um tímatakmarkanir sem við höfum sjálf sett okkur vegna anna hér nú þá kem ég til með að segja örfá lokaorð þó að vissulega hafi þær umræður sem hér hafa farið af stað gefið tilefni til þess að meira verði rætt. En ég treysti því einungis að hv. allshn. sem fær þetta mál til umfjöllunar komi til með að skoða það í því ljósi sem það var kynnt hér.

Vegna þess að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði mig um það hvaðan flutningsmenn frv. taka þessa tímalengd í refsingunum, þá verður það að viðurkennast varðandi kaupin á kynlífsþjónustunni að einungis Svíþjóð er með svona ákvæði í lögum og sænsku hegningarlögin eru þess eðlis að það fer allt eftir eðli brotsins, hvort viðkomandi er að nýta sér neyð, hvort viðkomandi er að fremja brot á barni o.s.frv. Það er ákveðin flokkun í þeim lögum þannig að við fórum ekki í að taka þau hrá inn en settum þessa fjögurra ára refsingu með tilliti til refsingar sem okkur þóttu sambærilegar í okkar eigin lögum. Það er því mat okkar sem liggur að baki þannig að því sé þá svarað. Það er að sjálfsögðu ekki heilagur bókstafur heldur nokkuð sem við verðum sífellt að vera með í skoðun, þ.e. refsirammi hinna ólíku brota. Það hefur verið rætt í allshn., veit ég til, að skoða hvernig samræming á refsiábyrgð eigi að fara fram. Í sumum ríkjum er það jafnvel til að það eru heilar stofnanir sem menn eru stöðugt að rannsaka og skoða refsiramma brota og ábyrgðir brotaþola.

Varðandi þau orð sem hér hafa fallið líka frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um samþykktir og tilmæli Evrópuráðsins þá hafa Íslendingar að sjálfsögðu fengið ótal tilmæli eða hafa á sér standandi frá Evrópuráðinu, frá Evrópusambandinu, frá Sameinuðu þjóðunum, t.d. sáttmálar og samningar sem við erum aðilar að og höfum ýmist fullgilt eða einungis undirritað. Alla þessa sáttmála eiga íslensk stjórnvöld að sjálfsögðu að skoða á hverju einasta ári og sjá til þess að þeir séu lögfestir. Síðasti samningurinn sem var undirritaður var samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám fjölþjóðlegrar glæpastarfsemi og þar fellur mansalið undir. Sá samningur var undirritaður í Palermo í nóvember árið 2000 og við höfum orð hæstv. dómsmrh. fyrir því að sá samningur verði fullgiltur á Íslandi á næstunni og sá samningur er lagalega bindandi fyrir aðildarríkin þannig að við skulum vona a.m.k. að með þeim samningi komi aukin ákvæði inn í lög varðandi þetta. En frv. er lagt fram til þess að byrjað verði á málinu og eins og kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur er þetta skref í áttina. Það er ekki hugsað sem annað. En þetta er þýðingarmikið skref og ég treysti því, herra forseti, að þetta mál verði tekið til skjótrar skoðunar í hv. allshn. sem fær það til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu.