Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 14:56:43 (6264)

2001-04-03 14:56:43# 126. lþ. 104.23 fundur 558. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (lausir kjarasamningar o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kem upp til að taka undir með þeim hv. þm. sem hafa talað á undan mér um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson er flutningsmaður að og vil ég taka undir málflutning hans hér er hann mælti fyrir frv. Hér er verið að leggja til réttarbót fyrir launþega ef upp kemur sú staða að kjarasamningar eru lausir mánuðum saman eins og komið hefur fram í umræðunni. Einnig eru lögð til ákvæði sem hafa þá þau óbeinu áhrif að hvetja aðila kjaradeilu til að leysa mál sín fyrr en ella.

Einnig er verið að leggja til réttarbót til launþega sem lendir í þessu, að honum verði tryggð leiðrétting á launum í samræmi við það sem samið hefur verið um við önnur launþegasamtök eða stéttarfélög. Sömuleiðis telur hv. þm., sem ég efast ekki um að hafi mikið vit á þessu og þekki þessi mál mjög vel, að þau ákvæði sem hann leggur til í frv. ættu að verða til þess að bein inngrip löggjafans í kjaradeilur yrðu sjaldséðari en verið hefur á undanförnum árum.

Þetta eru allt atriði sem vissulega þyrftu að komast í lög og vonast ég til þess, herra forseti, að þegar þetta mál kemur til hv. félmn. verði það tekið þar til umræðu. Þó svo að ekki hafi neinn stjórnarþingmaður tekið til máls um þetta ágæta frv. efast ég ekki um að þingmenn í hv. félmn. muni ræða málið. Ég mun a.m.k. leggja það til að málið verði afgreitt þaðan.