Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 14:59:03 (6265)

2001-04-03 14:59:03# 126. lþ. 104.23 fundur 558. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (lausir kjarasamningar o.fl.) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka undirtektir hv. þm. við málið. Ég held og vonast til þess að það fái góða afgreiðslu í félmn. Það er alveg rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að áðan að atvinnurekendur hafa hagnast á samningsleysinu sem oft hefur varað í marga mánuði eða jafnvel ár. Og það hefur gerst þrátt fyrir að viðræðuáætlanir hafi verið settar í lögin. En það var ábyggilega það sem hv. þm. átti við í ræðu sinni, að fyrir nokkrum árum voru sett ákvæði í lögin um stéttarfélög og vinnudeilur um svokallaða viðræðuáætlun sem setja átti niður í form milli samningsaðila. Eftir því átti síðan að vinna við lausn kjaradeilunnar. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir þau ákvæði viðræðuáætlunar hefur það ekki, svo séð verði, breytt miklu í ferli kjarasamninga og lausn kjarasamninga í vinnu við gerð þeirra t.d. inni í svokölluðu Karphúsi eða hjá ríkissáttasemjara, enda eru ákvæðin um viðræðuáætlanir ekki þau sömu í okkar lögum og hjá öðrum þjóðum, t.d. Dönum þar sem gert er ráð fyrir alveg ákveðnu ferli með því að fylgja annars vegar viðræðuáætluninni og síðan hvað skuli gerast í kjaradeilunni þegar ekki hefur náðst samkomulag eftir ákveðinn tíma. Í dönsku lögunum, minnir mig, ber ríkissáttasemjara að koma fram með alveg ákveðnar tillögur um hvernig tekin skuli afstaða til þeirra atriða sem ekki hefur samist um með sérstakri tillögu.

Ég þakka enn á ný undirtektir þingmanna.