Dómstólar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 16:03:21 (6275)

2001-04-03 16:03:21# 126. lþ. 104.27 fundur 415. mál: #A dómstólar# (skipun hæstaréttardómara) frv., Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um dómstóla en flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Einar Már Sigurðarson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhann Ársælsson og Jóhanna Sigurðardóttir.

Í þeim hugmyndum sem hér eru settar fram og birtast á þskj. 675, 415. mál, er lagt til að gerðar verði grundvallarbreytingar á skipun hæstaréttardómara.

Virðulegi forseti. Eins og ég held að hæstv. forseta hafi verið kunnugt um óskaði ég eftir að hæstv. dómsmrh. yrði viðstödd umræðuna og tæki þátt í henni og ég mundi þá væntanlega fá afstöðu hennar til þeirra hugmynda sem hér liggja fyrir. En ef ég skildi hæstv. forseta rétt þá mun hún vera á leiðinni.

(Forseti (ÁSJ): Forseti getur upplýst að dómsmrh. er á leið inn í hús og verður hér innan örfárra mínútna, að mér skilst.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessar upplýsingar og mun reyna að gera grein fyrir þeim hugmyndum sem lagðar eru hér fram og vænti þess þá að hæstv. dómsmrh. þekki þær og sé tilbúin til að tjá sig um þær þrátt fyrir að hún sé ekki viðstödd upphaf umræðunnar.

Virðulegi forseti. Dómstólar eru einn þriggja meginþátta ríkisvaldsins. Dómstólar eru ásamt löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi sá þáttur sem fjallar um réttarágreining og þann ágreining sem upp kann að koma í samfélaginu og menn geta skotið til dómstóla.

Eins og menn þekkja sækir Alþingi umboð sitt til þjóðarinnar í kosningum á fjögurra ára fresti, ef ekki er kosið fyrr, þannig að æðsti handhafi ríkisvaldsins, löggjafarsamkundan, hv. Alþingi, sækir umboð sitt beint til þjóðarinnar. Ríkisstjórnin sækir umboð sitt til meiri hluta Alþingis í svokallaðri þingræðisreglu, þ.e. að Alþingi eða meiri hluti þess verður að una við eða þola þá ríkisstjórn sem situr hverju sinni ella hefur Alþingi þann möguleika að setja viðkomandi ríkisstjórn af. Því má segja að beint og óbeint sæki Alþingi og ríkisstjórn jafnan umboð sitt til almennings.

En skipun á þriðja þætti ríkisvaldsins, þ.e. dómstólanna og skipun í æðsta dómstólinn sem mestu máli skiptir í þessum efnum, þ.e. í Hæstarétt, er með allt öðrum hætti. Núverandi fyrirkomulag er þannig að sjálfur hæstv. dómsmrh. hverju sinni skipar hæstaréttardómara og þarf í raun og veru ekki að ráðfæra sig við nokkurn þegar að því kemur, þannig að skipun einstaklinga í æðsta dómstólinn er algerlega á valdi eins ráðherra. Ég geri hins vegar ráð fyrir að fleiri komi að umræðu um skipun hæstaréttardómara en eins og fyrirkomulagið er þá er það algerlega á valdi eins ráðherra. Og það er nákvæmlega að þeirri hugmynd eða því skipulagi sem þetta frv. lýtur.

Hér er lagt til að í stað þess að hæstv. dómsmrh. skipi hæstaréttardómara einn og sér þá komi Alþingi að þeirri skipun. Hugmyndin er sú að í Hæstarétti eigi sæti níu dómarar sem forseti Íslands skipar ótímabundið samkvæmt tilnefningu forsrh., að fengnu samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi.

Er ráðherra hefur ákveðið hvern hann hyggst gera tillögu um sem hæstaréttardómara tilkynnir hann forseta Alþingis um það. Tillaga ráðherra skal hljóta meðferð í sérnefnd skv. 32. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, áður en hún er borin undir atkvæði þingmanna. Nefndin skal fjalla um hæfni umsækjanda um embættið og skila skýrslu til þingsins með rökstuddri niðurstöðu um mat sitt innan fjögurra vikna. Jafnframt skal nefndin leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjanda til að gegna embættinu.

Samþykki Alþingi tillögu ráðherra leggur hann hana fyrir forseta Íslands. Synji Alþingi staðfestingar á tillögu ráðherra gerir hann aðra tillögu og skal hún fá sömu meðferð.

Með þessum hugmyndum, virðulegi forseti, er í fyrsta lagi lagt til að Alþingi, löggjafarsamkundan, og æðsti embættismaður ríkisstjórnarinnar, forsrh., komi sameiginlega að því að skipa dómara við æðsta dómstól þjóðarinnar. Flutningsmenn eru sannfærðir um að þessi skipan væri mjög til þess fallin að styrkja trú manna og traust á dómstólum í landinu. Ekki er nokkur minnsti vafi á því, virðulegi forseti, og í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið um Hæstarétt, að mikilvægt er að treysta og tryggja enn frekar en nú er traust almennings á þessari æðstu stofnun þjóðarinnar á sviði dómstóla.

Enn fremur, virðulegi forseti, er lagt til að forseti Íslands veiti dómara við Hæstarétt lausn frá embætti um stundarsakir samkvæmt tilnefningu forsrh., en dómsmrh. veiti héraðsdómurum slíka lausn.

Enn fremur er lögð til breyting að því er varðar að höfða mál gegn hæstaréttardómurum og að það skuli vera á höndum forsrh. en nú er það á hendi dómsmrh.

Virðulegi forseti. Mál þetta er endurflutt en þrátt fyrir að það hafi verið lagt fram á síðasta þingi komst það ekki á dagskrá þingsins og var því aldrei rætt. Málið er því endurflutt óbreytt að efni til en greinargerð hefur verið endurskrifuð að hluta.

Íslensk stjórnskipun byggist að meginstefnu til á þrígreiningu ríkisvalds, þ.e. að því er skipt upp í löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald. Hugmyndafræðin að baki þrígreiningu ríkisvaldsins er sú að ekki safnist of mikið vald á fárra hendur. Með því að skipta ríkisvaldinu upp með þessum hætti er markmiðið að reyna að takmarka áhættu af því að misfarið sé með ríkisvaldið. Kenningin um þrígreiningu ríkisvaldsins er oftast rakin til franska stjórnvitringsins Montesquieus og rits hans ,,De l´Esprit des Lois`` er út kom árið 1748. Rót hugmynda Montesquieus er jafnan rakin til þeirra áhrifa sem hann varð fyrir meðan hann dvaldi á Englandi þar sem innanlandsátök leiddu til að valdinu var skipt upp milli konungs og þings, en valdi þingsins var síðan skipt upp í efri og neðri deild. Samkvæmt kenningu Montesquieus skyldi hver aðili fara með sína grein ríkisvaldsins. Hver hinna einstöku valdþátta átti að tempra eða takmarka vald hins, því ef allt ríkisvald væri á einni hendi eða höndum einnar stofnunar var að áliti Montesquieus hætta á ofríki og kúgun. Með skiptingu ríkisvaldsins milli þriggja þátta, sjálfstæðra valdhafa, ætti að vera hægt að ná því markmiði að koma í veg fyrir að nokkur þeirra verði svo sterkur að hann geti svipt þegnana frelsi með ofríki og kúgun að eigin geðþótta. Borgararnir þurfi því ekki að sæta geðþóttaákvörðun af hálfu þeirra sem með þetta vald fara án þess að eiga þess kost að geta borið slíkar ákvarðanir undir aðra valdþætti þess til endurskoðunar.

Þrátt fyrir að hugmyndin um þrígreiningu ríkisvalds gangi ekki ómenguð í gegnum stjórnskipunina verður því ekki á móti mælt að hún er sú hugsun sem býr að baki skiptingu ríkisvaldsins. Skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar fara dómendur með einn þátt ríkisvaldsins --- dómsvaldið. Samkvæmt hefðbundnum skilningi felur dómsvald í sér heimild eða vald til að skera úr tilteknum réttarágreiningi; kveða á um hvað sé rétt eða rangt lögum samkvæmt í hverju tilviki og komast að niðurstöðu í þeim málum sem undir dómsvaldið eru borin með lögmætum hætti. Það er því mikið vald sem mönnum er falið að fara með þegar þeir eru skipaðir til setu í æðsta dómstól landsins, Hæstarétti Íslands.

Það fyrirkomulag sem tíðkast hefur hér á landi við skipun hæstaréttardómara hefur gefið þeirri umræðu byr undir báða vængi að skipað sé í réttinn pólitískt og breytir engu hvaða ráðherra hefur átt í hlut hverju sinni. Það væri enn fremur fásinna að halda því fram að það skipti ekki máli fyrir þá sem í ríkisstjórn sitja hverju sinni hvaða viðhorf það fólk hefur sem sest í réttinn hverju sinni. Í þessu samhengi má minna á að deilur hafa lengi verið uppi meðal lögfræðinga, bæði hérlendis og erlendis, um það hversu langt dómstólar geta farið inn á svið löggjafans og endurskoðað ákvarðanir hans. Enn fremur hefur lengi verið deilt um hversu langt dómstólar geta gengið inn á það svið sem kallað hefur verið frjálst mat stjórnvalda við ákvarðanatöku og endurskoðað ákvarðanir þeirra, sbr. 60 gr. stjórnarskrárinnar um embættistakmörk yfirvalda.

Það er skoðun flutningsmanna að það sé miklum mun heilbrigðara að umræðan um það hver verði skipaður hæstaréttardómari, forsendur skipunarinnar og hver séu viðhorf dómara til þeirra grundvallaratriða sem lúta að hlutverki dómstóla og samskiptum þeirra við aðra handhafa ríkisvaldsins séu opinberar í stað þess að forseti Íslands skipi í réttinn að fenginni tillögu dómsmálaráðherra að undangenginni umsögn Hæstaréttar eins og nú er. Þetta þýðir í reynd að dómsmálaráðherra fer með þetta vald eða gerir í það minnsta tillögu til forseta um það hvern hann skuli skipa. Þetta gerist jafnan án opinberrar umræðu eða skoðunar. Það er enn fremur skoðun flutningsmanna að sú skipan sem hér er lögð til, þ.e. að Alþingi komi að skipun hæstaréttardómara sé til þess fallin að styrkja réttinn frá því sem nú er og gera hann enn sjálfstæðari. Það er ekki vafi á því að mati flutningsmanna að aukið sjálfstæði dómstóla sé aðeins til þess fallið að efla og styrkja trú manna á lýðræðið og stjórnskipun landsins. Því er þetta frumvarp lagt fram.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir þeirri grundvallarhugsun sem býr að baki því að hér er lagt til að breytt verði frá því fyrirkomulagi sem nú er við skipun hæstaréttardómara og það fært í þann búning sem hér er lagt til.

[16:15]

Ég held að ekki leiki á því nokkur vafi, virðulegi forseti, að staða dómstóla og staða Hæstaréttar yrði miklum mun betri og miklum mun öflugri og án efa miklu meiri trú á dómskerfinu í landinu ef skipun í réttinn væri með öðrum hætti en nú er. Það er líka fróðlegt, virðulegi forseti, að skoða hvernig hefur skipast í réttinn undanfarið. Þegar maður skoðar og fer yfir það hverjir hafi verið skipaðir í réttinn og sitja í honum nú þá hafa sjálfstæðismenn skipað sex dómara, alþýðuflokksmenn skipað einn og framsóknarmenn skipað tvo.

Virðulegi forseti. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að það hefur skipt máli hverjir hafa skipað dómara í Hæstarétt hverju sinni úr hvaða flokki þeir koma. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að það hefur skipt máli. Ég er hins vegar ekki að halda því fram að þeir sem hafi verið skipaðir hafi ekki haft hæfi eða getu til að sitja í Hæstarétti, það er langur vegur frá því, því að jafnan hafa margir hæfir menn sótt um. Ég er hins vegar að segja að það hefur skipt verulegu máli hver skipar og hvaðan menn koma.

Að sumu leyti, virðulegi forseti, hefur umræðan um Hæstarétt og jafnvel umræðan um Hæstarétt af hálfu hæstv. ráðherra oft og tíðum verið mjög sérstæð. Ekki er langt síðan umræðan um Hæstarétt var að einhverju leyti á þá leið að það væri eiginlega ekkert að marka dóma sem skiptu verulegu máli nema það sætu sjö í réttinum en það er meginregla að það séu fimm dómarar eða þrír sem dæma í hverju máli. Hins vegar hefur á það verið bent í þessari umræðu að þótt fjórir af sjö dómurum komist að einhverri niðurstöðu í réttinum þá sé það ekki endilega meiri hlutinn af níu. Þessi umræða hefur því verið mjög sérstæð og hún hefur jafnan sprottið upp þegar dómar hafa fallið sem sitjandi stjórnvöldum hverju sinni hafa ekki verið að skapi. Slík umræða er ekki til þess fallin að styrkja dómstólana eða trú almennings á þeim.

Ég held að í sjálfu sér sé það að bera í bakkafullan lækinn að tala um frægt sendibréf sem fór á milli þessa húss sem við sitjum í og Hæstaréttar. Þar hafði hver sína skoðun á málinu en ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þar fannst mér valdþættirnir tengjast um of og málið í raun og veru einungis verða til þess að styrkja þá trú mína að það sé algerlega nauðsynlegt að breyta frá þeirri skipan sem nú ríkir. Í raun og veru er allt of viðurhlutamikið að einn tiltekinn ráðherra skuli skipa dómara við æðsta rétt landsins.

Í þeim hugmyndum sem hafa verið lagðar fram er á því byggt að forsrh. geri tillögu til þingsins um það hvern hann vilji sjá skipaðan sem dómara við Hæstarétt. Í framhaldi af þeirri tilnefningu kjósi Alþingi sérnefnd sem fjalli um þá tilnefningu og skili skýrslu til þingsins. Í framhaldi af því og í slíkri skýrslu yrði þá fjallað almennt um þann sem tillaga er gerð um að setjist í Hæstarétt og þar verði m.a. fjallað um það sem hann hefur skrifað, það sem hann hefur sett fram og þau almennu viðhorf sem hann hefur, auk þess sem einkunnaskjalið yrði væntanlega haft til hliðsjónar að einhverju leyti en kannski ekki í forgrunni eins og hefur verið í umræðunni sem fram hefur farið. Það breytir ekki því að með því móti er að einhverju leyti gerð tilraun til að grafast fyrir um hver séu almenn þjóðfélagsviðhorf viðkomandi manns og þá enn fremur að sú umræða sé uppi á yfirborðinu. Það sé fjallað um það í opinberri umræðu hver séu grundvallarviðhorf viðkomandi einstaklings sem ég tel að sé mjög mikilvægt því að það er gríðarlega mikilvægt hvern við skipum í Hæstarétt hverju sinni.

Það hefur sýnt sig þegar menn skoða dóma Hæstaréttar, og sérstaklega þar sem verið er að fjalla um hagsmuni ríkissjóðs, að oftar en ekki eru það sömu aðilar sem eru í minni hluta sem byggja væntanlega þá að einhverju leyti á því hver þjóðfélagsviðhorf þeirra eru almennt. Það er einu sinni svo að lögin þarf að túlka, um þau þarf að fjalla, það þarf að fjalla um þau út frá stjórnarskránni, út frá lögunum o.s.frv. og í slíkri túlkun skiptir alltaf miklu máli hver almenn grundvallarviðhorf viðkomandi dómarar hafa til samfélagsins.

Virðulegi forseti. Ég held að ef þessi umræða væri dregin upp á yfirborðið og um hana fjallað og síðan kæmi að því að Alþingi tæki um það ákvörðun hver þarna skyldi setjast inn þá mundi það styrkja Hæstarétt. Það er miklu eðlilegra að tveir þættir ríkisvaldsins komi að þessari skipan í stað þess sem nú er þar sem einn tiltekinn ráðherra hefur tilnefningarvald til forseta Íslands, jafnvel þó fleiri fundi um málið í reykfylltum bakherbergjum.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi í almennri umræðu fjallað nokkuð um það mál sem við ræðum hér og gert svona þokkalega grein fyrir þeirri hugsun sem býr að baki því frv. sem við ræðum hér. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að koma hingað til fundarins og vænti þess að hún muni tjá sig hér á eftir um þessar hugmyndir. Að öðru leyti, virðulegi forseti, mun ég tjá mig frekar í síðari ræðu.