Dómstólar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 16:27:44 (6276)

2001-04-03 16:27:44# 126. lþ. 104.27 fundur 415. mál: #A dómstólar# (skipun hæstaréttardómara) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir meginhugsunina í því frv. sem er til umfjöllunar. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. var það lagt fram á síðasta þingi en vegna tímaskorts kom það ekki til umræðu þá þannig að hv. 1. flm., Lúðvík Bergvinsson, hefur verið vel vakandi í þessum efnum á þeim tíma. Þetta mál kom síðan að nýju til umræðu í þjóðfélaginu í tengslum við deilumál sem risu vegna umdeilds hæstaréttardóms í lok síðasta árs og ekki síður vegna þess hvernig Hæstiréttur kom fram gagnvart Alþingi og reyndar öðrum aðilum í þjóðfélaginu í tengslum við það mál. Þar vísa ég í margfrægt bréf, svarbréf til Alþingis og svarleysis gagnvart fjölmiðlum þegar þeir inntu Hæstarétt eftir upplýsingum.

Einnig hefur Hæstiréttur verið í umræðunni vegna skipunar í réttinn á síðustu mánuðum og missirum. Þess vegna gerðist það að þetta frv. og frv. frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, mjög samkynja, voru sett fram á þingi samdægurs, í byrjun árs mun það hafa verið. Frv. Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs eru um margt svipuð en frv. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er á dagskrá þingsins síðar í dag. Í báðum tilvikum er lagt til að Alþingi komi beint að skipun hæstaréttardómara, það þurfi samþykki Alþingis fyrir skipun hæstaréttardómara, það þurfi aukinn meiri hluta, tveir þriðju alþingismanna þurfi að greiða tillögu ráðherra atkvæði til þess að af samþykki geti orðið.

Annað er frábrugðið. Samkvæmt frv. Samfylkingarinnar er gert ráð fyrir því að tilnefningin komi frá hæstv. forsrh., í frv. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er gert ráð fyrir því að hæstv. dómsmrh. tilnefni dómarann, en í báðum tilvikum, eins og ég segi, er ætlast til þess að Alþingi, tveir þriðju hlutar Alþingis samþykki þessa tilnefningu. Með því móti teljum við að megi koma í veg fyrir að þröngir flokkspólitískir hagsmunir ráði för.

Víða erlendis er reynt að tryggja að fagleg sjónarmið ein ráði ferðinni við skipan dómara sem á aftur að vera ávísun á hlutleysi og óhæði dómsins. Oftast er þá um að ræða að einhvers konar samþykki þjóðþingsins þurfi við tillögum framkvæmdarvaldsins þannig að hinir tveir meginvaldhafarnir komi sér saman um skipan manna í æðstu stofnun þriðja valdsviðsins, þ.e. dómstólsins.

Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur gert mjög glögga grein fyrir frv. sem hann er 1. flm. að og aðrir hv. þm. Samfylkingarinnar flytja, og reyndar, eins og fram kom, var lagt fyrir á síðasta þingi þótt það færi ekki þá í umræðu vegna tímaskorts.

Ég vil einnig gera grein fyrir frv. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í samhengi við þetta frumvarp. Þetta eru frumvörp af sama meiði. Að grunni til get ég tekið undir hugsunina sem frv. Samfylkingarinnar byggir á enda er hún mjög svipuð þeirri hugsun sem frv. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hvílir á.