Dómstólar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 16:29:49 (6277)

2001-04-03 16:29:49# 126. lþ. 104.27 fundur 415. mál: #A dómstólar# (skipun hæstaréttardómara) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hv. frsm. Lúðvík Bergvinsson hefur í máli sínu gert rækilega grein fyrir efni þess frv. sem hér er til umræðu og nokkrir hv. þm. Samfylkingarinnar leggja fram auk hans. Málið er endurflutt eins og fram hefur komið, var flutt á síðasta þingi, er óbreytt að mestu að efni til en greinargerðin endurskrifuð að hluta.

Í þessu frv. er lagt til að gerðar verði grundvallarbreytingar á skipan hæstaréttardómara. Í stað þess að hæstaréttardómari sé skipaður samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra tilnefni forsætisráðherra dómara að fengnu samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi. Áfram er gert ráð fyrir að skipunarvaldið sé hjá forseta Íslands. Þegar forsætisráðherra hefur ákveðið hvern hann hyggst tilnefna skal hann tilkynna forseta Alþingis um tilnefningu sína. Tillögu ráðherra skal vísa til meðferðar í sérnefnd skv. 32. gr. laga um þingsköp Alþingis sem kjósa skal til að fjalla um tilnefningu ráðherra. Nefndin skal fjalla um hæfni þess sem tillaga er gerð um og skila skýrslu með mati sínu innan fjögurra vikna frá því að hún fær tillöguna til umfjöllunar. Líkt og er nú skal umsagnar Hæstaréttar leitað um hæfi og hæfni umsækjanda til að gegna embættinu.

Tilgangurinn með þessu frv. er sá, herra forseti, að leitast við að gera dómstóla sjálfstæðari en nú er. Þetta frv. felur í sér viðleitni til að fjarlægja í raun og veru dómara sem mest skipunarvaldi sínu ef svo má orða það og þá kannski í þeim skilningi að reynt sé að tryggja þverpólitíska aðkomu og leitast við að gera sátt áður en gengið er frá því hver það er sem á að gegna embætti hæstaréttardómara. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fór áðan yfir það hvernig þessu sé háttað núna og rakti það að í raun og veru hafi farið fram afskaplega lítil opinber umræða um skipan hæstaréttardómara á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög óeðlilegt þannig að það er einn liður í tilgangi þessa frv. að draga umræðuna upp á yfirborðið.

[16:30]

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að fram fari lýðræðisleg rökræða um svo mikilvægt mál og það þegar velja á dómara í Hæstarétt Íslands, í æðsta dómstól þjóðarinnar. Sá einstaklingur er 1/9 af þessum æðsta dómstól og hefur þar af leiðandi mikil völd og mikil áhrif og þess vegna skiptir verulegu máli fyrir hagsmuni borgaranna og fyrir okkur öll hverjir það eru sem veljast til starfa í þessum ágæta dómstól. Þess vegna er opinber umræða um þetta mikilvæg og ég vil reyndar ganga svo langt að segja að hún sé nauðsynleg lýðræðinu. Við eigum ekkert að óttast þessa umræðu eða líta á hana sem eitthvert vantraust eða eitthvað tortryggilegt gagnvart þeim einstaklingum sem eiga í hlut og bjóða fram krafta sína til þess að gegna störfum sínum.

Eins og ég sagði hefur lítil umræða átt sér stað hér á landi um það þegar hæstaréttardómarar eru skipaðir ólíkt því sem gerist mjög víða erlendis og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Hérna gerist þetta þannig að Hæstiréttur gefur umsögn um þá einstaklinga sem sækja um. Dómsmrh. gerir tillögu til forseta og ef umræða fer af stað, þá gerist það oft þegar málin í raun og veru eru frágengin.

Það hefur oft verið svo að ef einhver umræða fer af stað um þann einstakling sem skipaður hefur verið, þá eru þeir sem gagnrýna þá skipan gjarnan vændir um það að vera að ráðast persónulega á þann tiltekna einstakling. Umræðan hefur því verið í hálfgerðum hnút ef hún á annað borð hefur farið af stað vegna þess að í raun og veru er ekki aftur snúið þegar upplýst er hver það er sem fyrir valinu verður.

Herra forseti. Ég tel ekki rétt að standa svona að málum. Ég tel mjög mikilvægt að tekin sé umræða um það hvaða kostum viðkomandi einstaklingur þarf að vera búinn til þess að eðlilegt sé að hann verði skipaður í Hæstarétt og auðvitað þarf að skoða það í samhengi við þá einstaklinga sem þar sitja hverju sinni. Við höfum stundum tekið opinbera umræðu um það, herra forseti, að skipa þurfi fleiri konur í Hæstarétt. Það er t.d. eitt sjónarmið sem þarf að taka tillit til og nýlega hefur kona verið skipuð í Hæstarétt og var það mjög mikið ánægjuefni. En svo er það ýmislegt annað sem þarf að taka tillit til, fyrir hvað standa þessir einstaklingar, hvaða sérþekkingu hafa þeir o.s.frv.

Herra forseti. Umfram allt er opinber umræða um þessi mál af hinu góða og ég tel að hún sé beinlínis jákvæð í garð Hæstaréttar vegna þess að með því eru meiri líkur á því að Hæstiréttur njóti trausts þegar ekki þarf fara neitt með þessa umræðu undir yfirborðið.

Auðvitað er það svo að Hæstiréttur á að verða svo óumdeilanlegur sem nokkur möguleiki er á. Það er mjög mikilvægt að til hans sé borið traust af almenningi í landinu, að landsmenn geti treyst því að þar sé saman komin breið og yfirgripsmikil þekking og að þar sitji fólk sem er hafið yfir flokkadrætti og sé fyrst og fremst þekkt af faglegum verkum sínum. Nú vil ég meina, herra forseti, að það sé svo að Hæstiréttur Íslands sé alveg ágætlega skipaður fagfólki, en það er samt þannig að það hefur verið gagnrýnt hversu í raun og veru þröng aðkoman hefur verið að því hverjir skipa eða hverjir hafa áhrif á það hverjir eru valdir til setu í Hæstarétti og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fór yfir það áðan. Nýlega var heilsíðuumfjöllun í dagblaðinu Degi sáluga um þetta þar sem bent var á það m.a. að sjö af níu, ef ég man rétt, núverandi hæstaréttardómurum séu skipaðir af ágætum ráðherrum Sjálfstfl.

Herra forseti. Ég tel það vera óeðlilegt að dómsmálaráðherra, sem eins og sagan sýnir hefur komið yfirleitt úr sama stjórnmálaflokknum, Sjálfstfl., komi svo til einungis að þessari skipan hæstaréttardómara. Með fullri virðingu fyrir meirihlutalýðræðinu þá tel ég þetta ganga illa upp gagnvart þeim hluta borgaranna sem ekki kemur úr þessum ágæta flokki.

Herra forseti. Ég ítreka það enn og aftur að ég er ekki að segja að það sé víst að þessir dómarar séu allir pólitískt háðir þeim hæstv. ráðherra sem skipar þá hverju sinni heldur einungis hitt að þetta býður upp á tortryggni í garð réttarins og þess vegna er þetta óæskilegt.

Herra forseti. Ég tel mjög hollt fyrir okkur að rifja svolítið upp þá hugmyndafræði sem íslensk stjórnskipan byggir á um þrígreiningu ríkisvaldsins, sem farið var yfir af hv. framsögumanni, um mikilvægi þess að greina valdþætti ríkisvaldsins í þrjár greinar. Hver þeirra á í raun og veru að tempra hina í því skyni að um sé að ræða minni líkur á því að ríkisvaldinu sé beitt sem ofurvaldi gegn borgurunum. Það er það sem býr að baki þessari hugmyndafræði og ég held að okkur sé mjög hollt, herra forseti, að rifja reglulega upp hvað það er sem gerði það að verkum að þessi hugmyndafræði hefur farið sigurför um allan heiminn. Það er einmitt að með því tekst að tempra ríkisvaldið og minnka líkur á að því sé misbeitt gagnvart borgurunum.

Þróunin í íslenskri stjórnskipun, herra forseti, hefur verið sú að framkvæmdarvaldið hefur eflst mjög og að mínu mati óeðlilega á kostnað hinna greinanna tveggja, dómsvalds og löggjafarvalds. Við höfum oft rætt það á hinu háa Alþingi þá sérstaklega hvað varðar stöðu Alþingis sjálfs í stjórnskipaninni og við höfum oft fjallað um hver staða Alþingis er gagnvart framkvæmdarvaldinu. En við þurfum líka að horfa til dómsvaldsins, herra forseti. Við þurfum að tryggja sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu ekki síður en að við þurfum að tryggja stöðu löggjafarvaldsins og Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu líka. Ég lít svo á að þessi tillaga sé liður í þeirri viðleitni.

Það er því mjög við hæfi líka, í ljósi stöðu Alþingis og þeirrar umræðu að framkvæmdarvaldið sé orðið óeðlilega sterkt gagnvart hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins, að Alþingi komi að skipan hæstaréttardómara eins og lagt er til í þessu frv. og ekki síst, herra forseti, í ljósi þess sem segir í íslenskum stjórnskipunarrétti um það að Alþingi sé ótvírætt valdamesta stofnun ríkisvaldsins. Þar segir líka að þó byggt sé á þrígreiningu ríkisvaldsins, sé þó ekki jafnræði milli valdþáttanna því að Alþingi beri þar höfuð og herðar yfir aðrar stofnanir í skilningi stjórnskipunarréttarins. Þetta held ég að sé mikilvægt að rifja upp hér á Alþingi, herra forseti.

Ég vil í lokin segja að Alþingi þarf að standa vörð um þennan heiðurssess sinn í stjórnskipaninni, m.a. með því að hafa fleiri verkefni undir sínum hatti í stað þess að senda þau frá sér til framkvæmdarvaldsins, til ráðuneytanna þar sem mál eru óneitanlega rekin í ljósi þeirrar pólitísku áherslu sem hver ráðherra setur hverju sinni og þar er enginn flokkur undanskilinn. Ráðherrarnir eru í raun og veru pólitískir yfirmenn ráðuneytanna og reka ákveðna pólitíska stefnu. Á Alþingi er hins vegar meiri möguleiki að koma að áhrifum frá öðrum stjórnmálaflokkum og öðrum hópum. Þess vegna, herra forseti, er mikilvægt að Alþingi komi að þessari skipan eins og lagt er til í þessu frv.

Við í Samfylkingunni höfum reyndar lagt fram mun fleiri mál á þessu þingi og öðrum þingum sem snúa að því að efla stöðu Alþingis í stjórnskipaninni. Vil ég þá minna sérstaklega á mál sem við ræddum fyrr í vetur um lagaráð þar sem lagt var til að staðið væri betur að löggjafarundirbúningi með því að stofna lagaráð sem starfaði undir hatti Alþingis.

Herra forseti. Ég tel að með þessu frv., ef það yrði að lögum, kæmi umræðan um skipan hæstaréttardómara meira upp á yfirborðið. Meiri líkur væru á því að sátt yrði tryggð um þann sem skipaður væri hverju sinni, sem ég tel ótvírætt til bóta fyrir Hæstarétt, fyrir stöðu hans í stjórnskipaninni og mundi minnka líkur á því að tortryggni skapist gagnvart skipan hæstaréttardómara hverju sinni.