Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:18:04 (6287)

2001-04-03 17:18:04# 126. lþ. 104.28 fundur 432. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., DÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Daníel Árnason:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við fram komna tillögu og lýsi jafnframt hrifningu minni yfir þeirri þrautseigju hv. þm. að flytja þetta mál hér aftur og aftur.

Hér er um að ræða tillögu um að gera tilraun á því hvort tenging helstu byggðarlaganna á Eyjafjarðarsvæðinu skili árangri og þjóni tilgangi. Ég fullyrði að hún mun skila árangri og hún muni þjóna tilgangi. Tillagan gerir ráð fyrir reglubundnum ferðum milli þéttbýliskjarnanna. Það mundi gerbreyta möguleikum fólks, sér í lagi ungs fólks til að nýta sér valkosti á svæðinu svo sem til atvinnuþátttöku, skólastarfs, íþrótta, tómstunda og menningar. Samgönguvalkostur af þessu tagi mundi tvímælalaust auka möguleika fólks á þeim sviðum sem ég nefndi, ekki aðeins í þá átt að efla starfsemi á Akureyri heldur er ég ekki í vafa um að það mundi einnig styrkja starfsemi og tilvist byggðakjarnanna utan Akureyrar.

Varðandi skipulag þessara mála vil ég nota tækifærið og benda þingheimi á afar slakt skipulag á staðsetningu og skipulagi varðandi almenningssamgöngur í landinu sem heild og taka undir það sem hv. þm. sagði hér á undan. Þar á ég við þær tengimiðstöðvar sem notaðar eru bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri eða í Eyjafirði þar sem eru aukavegalengdir á milli þeirra samgöngumiðstöðva, ég nefni eins og á milli BSÍ og flugstöðvar innan lands, eða til Keflavíkur frá Loftleiðahótelinu þar sem menn þurfa að taka auka- og millileggi sem taka tíma og fé manna. Þess vegna fagna ég því að farin er af stað vinna við að móta heildarskipulag og heildarfyrirkomulag í þessum efnum og þannig megi fækka ferðaleggjum í almenningskerfi okkar innan lands.

Um kostnaðarlið slíkra mála er það að segja að í flestum tilfellum þarf að niðurgreiða almenningssamgöngur, það er vitað, og hreinlega í þá veru að auka þjóðhagslega hagkvæmni t.d. í orkunotkun og annað þess háttar. Ég held því að menn verði að horfast í augu við það að þurfa að greiða með slíkum verkefnum. Við verðum í byggðalegum tilgangi að leita aðgerða til að efla innri styrk byggðakjarna og héraða og þetta verkefni er mjög vel til þess fallið að auka innri styrk héraðsins og það er vel.

Herra forseti. Ég á ekki von á að ég eigi þess kost að hafa frekari áhrif á framgang þessa máls í þingsölum en vildi koma hér og lýsa yfir stuðningi við málið.