Umferðaröryggi á Suðurlandsvegi

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:37:44 (6290)

2001-04-03 17:37:44# 126. lþ. 104.29 fundur 443. mál: #A umferðaröryggi á Suðurlandsvegi# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er vissulega ánægjulegt í hvert sinn sem vegaúrbætur koma til umræðu, sérstaklega þegar tillögur eru fluttar um að fara skynsamlegar leiðir í þeim efnum eins og hér er gert. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna að í þeim tillögum og hugmyndum sem fram hafa komið, ekki bara þessari heldur oft áður þegar talað er um leiðina frá Reykjavík austur yfir fjall, þá vilja menn gleyma því að Þrengslavegur er mikið notaður. Þar hafa þungaflutningar aukist verulega á undanförnum árum. Hann er hins vegar þannig að segja má að meiri þörf sé á úrbótum á Þrengslavegi en á veginum yfir Hellisheiðina, þ.e. ef ástand þessara vega yrði borið saman í dag. Þar með er ég þó ekki að draga úr þeirri þörf sem er fyrir hendi á veginum yfir Hellisheiðina.

Talað er um að austur yfir heiðina fari um 12--15 þús. manns hverja einustu helgi allan ársins hring, þ.e. íbúar á Suðurlandi og þeir sem eiga leið frá höfuðborgarsvæðinu yfir á Suðurlandsundirlendið. Sumarbústaðaeign Reykvíkinga er orðin mikil á Suðurlandi og fjöldi manns fer yfir heiði til síns annars heimilis, þ.e. í sumarbústað. Nú þegar er búið að samþykkja eitt sumarbústaðahverfi á Suðurlandi sem heilsársbyggð, einfaldlega vegna þess að húsin þar eru notuð meira og minna allan ársins hring. Það segir sig því sjálft að þar er mjög mikil umferð.

Einn af flm. þessarar þáltill. er hv. 4. þm. Suðurl., Ísólfur Gylfi Pálmason, hefur tekið þátt í vinnu innan þingmannahópsins á Suðurlandi og umræðu um úrbætur á leiðinni yfir Hellisheiðina. Það hafa nokkrum sinnum verið fluttar tillögur um lýsingu Hellisheiðar. Ég held að það hafi fyrst verið gert af fyrrv. þingmanni Eggerti Haukdal. Þá var lítill áhugi á því að lýsa. Einhvern tíma var flutt fyrirspurn þar sem fyrrv. samgrh., hv. þm. Halldór Blöndal, núverandi forseti þingsins, sagði í svari sínu að rannsóknir hefðu sýnt að lýsing gæti jafnvel aukið hættu á slysum. Eins og fram kemur í greinargerðinni hefur því aftur á móti ekki verið þannig farið eftir að Reykjanesbrautin var lýst.

Ég fagna allri umræðu um umferðaröryggi á Suðurlandsvegi. Þrátt fyrir að þingmenn Sunnlendinga hafi ákveðnar tillögur til úrlausnar í þessum efnum lít ég svo á að sú tillaga sem hér er sé einungis til að hnykkja á því að úrbóta er þörf á þessum fjölfarna vegi þar sem slysatíðnin er allt of há. Sú leið sem þarna er lögð til er ein af þeim sem hafa verið skoðaðar og ég tel mjög vænlega, þ.e. lenging klifrreina og aukin lýsing. Ég minni hins vegar aftur á að Þrengslavegurinn er hluti af þessari leið og hann er sífellt meira notaður. Það hefði þurft að taka vegabætur þar inn í heildarútreikninga Vegagerðarinnar.

Ég get auðvitað ekki látið hjá líða að minnast á það sem nefnt er hér, að það þurfi að auka þjónustuna á þessari leið. Meðal annars er talað um að auka þurfi eftirlit lögreglunnar með hraðakstri. Ég get svo sannarlega tekið undir það en staða lögreglunnar í þessu umdæmi útilokar að lögreglan geti aukið eftirlitið miðað við það fjársvelti sem hún býr við. Það segir sig sjálft að 800 millj. í vegaframkvæmdir eins og þessar eru ekki sérlega há upphæð þegar horft er á alla þá umferð sem þarna er, bæði fólksbíla en ekki síður þungaflutninga.

Ég fagna þessari tillögu og tel hana styrkja þá baráttu sem hv. þm. en ekki síður félagasamtök hafa staðið í og hefur vakið marga upp af værum blundi hvað varðar þetta verkefni. Vinir Hellisheiðar austur á Selfossi hafa virkilega ýtt við bæði þingmönnum, vegagerðarmönnum og öðrum sem koma að þessum málum og hvatt til þess að láta til skarar skríða.