Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:52:23 (6292)

2001-04-03 17:52:23# 126. lþ. 104.30 fundur 456. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:52]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að þessari tillögu um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

Það hvernig þessum hlutum er fyrir komið er sannarlega hluti af því starfsumhverfi sem íslenskur sjávarútvegur hefur og er, herra forseti, hluti þeirrar deilu eða hefur mikið með þá deilu að gera sem hefur staðið linnulítið milli sjómanna og útvegsmanna nú undanfarinn áratug eða svo.

Það er alveg ljóst að löggjafinn hefur ekki verið tilbúinn til þess að taka þannig á málum að kröfur sjómanna og þeirra sem vilja sjá virka samkeppni á þessum markaði gætu náð fram að ganga. Þvert á móti hefur margoft komið fram í þinginu í umræðum að það er undarlegur vilji fyrir því að viðhalda eins konar einokun innan sjávarútvegsins, einokun allt frá því að kvótanum var úthlutað og síðan allt ferlið þar til varan er seld á erlendum mörkuðum. Það er rökstutt af hálfu þeirra sem styðja slíkt með því að sami aðilli verði að geta haft yfirsýn yfir allt ferlið. Þetta eru rök sem eru einlægt fram borin þegar menn vilja viðhafa einokun og svo merkilegt er, herra forseti, að þau eru einkum borin hér fram af hálfu þeirra sem í orði kveðnu segjast hins vegar aðhyllast frjálsa samkeppni.

Hv. þm. vék áðan að stöðunni í Færeyjum. Ég var einmitt að lesa hér bréfið frá Føroya Fiskimannafelag sem þeir rituðu Davíð Oddssyni þegar sjómannadeilan var komin á ákveðið stig og sendu LÍÚ afrit. Þar segir að þeir styðji íslenska sjómenn í baráttu þeirra fyrir markaðsvirði fyrir aflann. Ég ætla síðan, herra forseti, að leyfa mér að þýða lauslega þetta bréf. Þeir greina frá því að sá háttur hafi nú verið hafður á í mörg ár í Færeyjum að aðskilnaður sé milli veiða og vinnslu og að fiskvinnslan geti einungis keypt sér hráefni á markaðsforsendum.

Þeir fjalla síðan um það eða segja frá því að þetta hafi í raun framkallað efnahagslegt undur. Hv. þm. vék einmitt að því áðan. Hann var að segja frá því hve hagur allra --- ég endurtek --- allra þeirra sem eru aðilar að færeyskum sjávarútvegi hefur í raun vænkast. Það kemur fram í þessu bréfi að fiskvinnslan eða frystihúsin standa sig betur þrátt fyrir hærra verð. Útgerðin og sjómennirnir hafa meira til skipta en þegar íslenska ástandið var við lýði, eins og þeir orða það, þar sem útgerðin hafði áður hagsmuni af lægstu verðum sem þá þýddi líka að vinnslan hafði ekki þann hvata til hámarksárangurs sem hún hefur núna.

Herra forseti. Kannski má hérna bera saman annars vegar fyrirtæki þar sem sami aðili er eigandi vinnslu og veiða og hins vegar fyrirtæki sem þurfa að kaupa allan afla sinn á markaði. Þau fyrirtæki hafa verið að ná prýðisárangri. Það háir þeim reyndar að þau fá ekki nægilegt hráefni. En þetta eru fyrirtækin sem hafa dregið vagninn varðandi þróun í fiskvinnslu á undanförnum árum. Þau hafa verið að gera afskaplega góða hluti. Hér á suðvesturhorninu eru fleiri fyrirtæki, þ.e. það er miklu fleira fiskvinnslufólk hér á þessu landsvæði sem starfar hjá fyrirtækjum sem ekki eru jafnframt í eigu útgerðar og þessi fyrirtæki hafa ekki verið að borga sínu fólki lægra kaup eða gera lakar við það en önnur. Af þessu má sjá að Íslendingar geta gert þetta rétt eins og frændur þeirra Færeyingar.

Við erum hér á naumt skömmtuðum tíma þannig að ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hef talað fyrir þessari tilhögun oft áður og fagnaði því þegar hv. þm. bað mig um að vera meðflutningsmaður. Ég vænti þess að þessi tillaga verði þingmönnum enn til umhugsunar um þetta mikilvæga mál.