Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:57:18 (6293)

2001-04-03 17:57:18# 126. lþ. 104.30 fundur 456. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:57]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir að sá tími sem ætlaður er í málið er útrunninn þannig að ég mun nota aðeins örstuttan tíma. Ég er meðflutningsmaður að þessari tillögu Guðjóns A. Kristjánssonar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og vinnslu. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur gert ágætlega grein fyrir innihaldi tillögunnar ásamt hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur.

Ég held að tillagan sé liður í framþróun í veiðum og vinnslu, aðallega þó kannski í vinnsluferlinu. Þetta á að vera einföld aðferð vegna þess að þó að fyrirtæki séu í veiðum og vinnslu þá er bókhaldi þannig háttað í dag að þetta ætti að vera lítið mál fyrir fyrirtækin. Ég tel að stóri ávinningurinn sé líka að fá frið milli sjómanna og útgerðarmanna um verðlagningu aflans og að það sé stórmál.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir vitnaði í færeysku leiðina. Ég átti þess kost í fyrrahaust að heimsækja Færeyjar þar sem mér varð gerð grein fyrir því hvernig ástandið hefði breyst þar á eyjunum í kjölfar þess að lög voru sett um aðskilnað á veiðum og vinnslu. Ótrúlegar upphæðir eru þar nefndar í virðisauka vinnslunnar gagnvart útlöndum þannig að ég er sannfærður um að þessi þáltill. á fullan rétt á sér. Þetta er þróun sem koma skal og vonast ég til þess að þetta eigi greiða leið í gegnum nefnd og síðan til afgreiðslu þingsins.