Vegalög

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 18:00:09 (6295)

2001-04-03 18:00:09# 126. lþ. 104.31 fundur 462. mál: #A vegalög# (vegir að sumarbústaðahverfum) frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[18:00]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum, á þskj. 738, 462. mál.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Árni Ragnar Árnason, Guðjón Guðmundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

1. gr. hljóðar svo:

,,Við upptalningu í 1. mgr. 16. gr. laganna bætist: og allt að 50% kostnaðar við uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á veg að sumarbústaðahverfi með a.m.k. 50 bústöðum.``

Í 2. gr. er gert ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 2002.

Í athugasemdum við frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Sumarbústöðum landsmanna hefur fjölgað mikið síðustu áratugina og má telja líklegt að sú þróun haldi áfram. Bústöðum hefur fjölgað um allt land en þó mest á suðvesturhluta landsins. Risið hafa nokkur hverfi með tugum bústaða, mörg hundruð manna byggðarlög. Sem að líkum lætur eru flestir bústaðirnir í námunda við höfuðborgarsvæðið, einkum í Árnessýslu, Kjós og Borgarfjarðardölum. Mikil umferð verður óhjákvæmilega í slíkum hverfum og á aðkomuvegum þeirra. Aðkomuvegirnir, sem ýmist liggja um tengi-, safn- eða landsvegi og einkavegi, eru margir vanbúnir að taka við svo mikilli umferð. Þess vegna verður ekki hjá því komist að styrkja þessa vegi, hvort sem þeir teljast til tengivega, safnvega eða landsvega og einkavega, með fjárframlögum ef þurfa þykir. Er því lögð til breyting á 16. gr. vegalaga í þá veru að heimilað verði að styrkja vegi að sumarbústaðahverfum.

Með 50% kostnaðarþátttöku Vegagerðar er ætlast til að sumarbústaðaeigendur, jarðeigendur, sveitarfélög og/eða hreppir komi með 50% mótframlag sé samstaða um slíka vegagerð sem hér er getið.

Þá þykir rétt að miða við hverfi með a.m.k. 50 bústöðum og lægi þá einn vegur að miðstöð þess, ef hún er einhver, ellegar að stað þar sem vegur greinist til hinna ýmsu bústaða.

Ekki liggur fyrir um hve mörg hverfi er að ræða, en lausleg athugun bendir til þess að þau geti verið á milli 20 og 30.

Með samþykkt þessa frv. væri stigið stórt spor í vegamálum á Íslandi ,,ekki bara ríkisforsjá í vegagerð`` að öllu leyti hvað fjármögnun varðar.

Segja má að samhliða því að hver einstaklingur hafi löngun og þörf fyrir að koma sér upp vistvænni og notalegri aðstöðu í fagurri sveit þurfi hann að leggja ýmislegt af mörkum til að gera góða sveit enn betri og fallega sveit enn fegurri. Þannig vinnur fólk samhliða að eigin vellíðan og að framförum hjá þeim sem fyrir eru í viðkomandi sveit. Þetta kann að gerast í margvíslegri mynd og á mismunandi sviðum.

Góðar samgöngur krefjast þess að nútímalegir vegir leysi af hólmi þá gömlu sem í upphafi voru lagðir miðað við þarfir fyrri tíma, með moldarvegum, hestakerrum og tilheyrandi aðstæðum. En nú er er farið að byggja upp akvegi með bundnu slitlagi sem miðast við nútímasamgöngutækni og umhverfisaðstæður sem allir eru sammála um að þarf að sinna vel, ekki bara fyrir fólkið heldur líka, og ekki síður, fyrir landið sjálft, vegna gróðursins og alhliða umhyggju fyrir verndun landsins.

Nærtækt dæmi: Í Grímsnes- og Grafningshreppi í Árnessýslu er að finna eitt fjölmennasta sumarhúsasvæði landsins. Þar eru um 600--700 sumarhúsalóðir, einnig nokkrar jarðir sem ýmist eru í byggð enn þá eða voru það áður fyrr og enn fremur sérstök mannvirki eins og sundlaugin í Hraunborgum og Golfvöllurinn að Kiðjabergi sem segja má með sanni að eru heilsulindir. Kiðjabergsvegur liggur frá Biskupstungnabraut að hinu forna höfuðbóli Kiðjabergi og gegnir afgerandi hlutverki sem tengivegur fyrir alla framangreinda aðila. Sumarhúsalóðirnar eru t.d. á átta mismunandi landsvæðum sem öll njóta Kiðjabergsvegar en þau eru: Foss, Hraunkot, Mýrarkot, Göltur, Arnarbæli, Kiðjaberg, Hestland og Gíslastaðir.

Árið 1994 hófust viðræður milli hinna ýmsu aðila um hvernig koma mætti á samstarfi milli einkaaðila sem hlut eiga að máli, svo og Vegagerðinnar og Grímsneshrepps. Vegamálastjóri og umdæmisverkfræðingurinn á Suðurlandi, auk hreppstjóra Grímsneshrepps, tóku þátt í viðræðunum og gerðar voru fjárhags- og framkvæmdaáætlanir. Málið sóttist hins vegar seint, m.a. vegna þess að Vegagerðin hafði ekki yfir beinum fjármunum að ráða í þessu skyni.

En orð eru til alls fyrst. Svo ánægjulega tókst til að 8. júlí 1997 gerðu fulltrúar einkaaðilanna með sér skriflegt samkomulag um hvernig vænlegast væri að standa að framkvæmdum við uppbyggingu Kiðjabergsvegar með bundnu slitlagi. Ekki síst var byggt á hugmyndum umdæmisverkfræðings Vegagerðarinnar sem veitti góð ráð í því sambandi. Samhliða þessu kom fram hjá vegamálastjóra og hreppstjóra Grímsneshrepps hvaða möguleikar kynnu að vera af þeirra hálfu varðandi fjármögnun og aðstoð að öðru leyti. Kiðjabergsvegur er um 8 km og flokkast að meginhluta undir safnveg samkvæmt vegalögum.

Um haustið 1997, eftir að aðilar höfðu gengið nánar frá samkomulagsgrundvellinum, annaðist Vegagerðin útboð kaflans frá Biskupstungnabraut að Hraunborgum en það er u.þ.b. 1/3 heildarlengdar Kiðjabergsvegar.

Framkvæmdir samkvæmt útboðinu hófust í byrjun árs 1998 og lauk á miðju sumri. Árið 1999 var framkvæmdum haldið áfram en þá samkvæmt samningum við verktaka og í umsjá samstarfsnefndar landeigenda. Vegagerðin veitti ekki beinan fjárstuðning við þennan áfanga, en sýndi hins vegar verkefninu góðan skilning og velvilja með því að leggja til eftirlit með framkvæmdum og veita landeigendum ráðgjöf og tæknilega liðveislu. Síðasti hlutinn var síðan unninn síðastliðið sumar. Verkinu er nú lokið og vegurinn kominn alla leið þangað sem upphafssamkomulag gerði ráð fyrir.

Vegagerðin var fjárhagslegur þátttakandi við lokaáfangann og má rekja það til góðs skilnings vegamálastjóra og þingmanna Suðurlandsumdæmis. Haft var samband við þá alla og samþykktu þeir að af óskiptu fé til vegamála á Suðurlandi á síðasta ári skyldi varið fé til stuðnings uppbyggingu vegarins og þessa merka framtaks.

Framkvæmd eins og sú sem hér um ræðir byggist á fúsu og frjálsu framtaki þar sem ekki er við neinn lagalegan rétt að styðjast. Skilningur einstaklinga á mikilvægi þess sem verið er að vinna að, þ.e. umferðaröryggi og umhverfismálum, skipar æ meiri sess í daglegu lífi almennings og á sinn stóra þátt í að tryggja ánægjulegra og betra daglegt líf. Sýni einstaklingarnir skilning, samstöðu, vilja og getu til athafna má gera ráð fyrir að ekki standi á þátttöku og stuðningi opinberra aðila.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, í grg. með frv. en eins og ég kom að í henni er þetta eitt fyrsta átak og fyrsta framkvæmd þar sem ekki er bara ríkisforsjá í vegagerð og er því allrar athygli verð. Með frv. er lagt til, eins og ég kom að hér í upphafi, að heimild verði sett í lög fyrir Vegagerðina til að taka þátt í slíku samstarfi sem hér hefur verið lýst.

Ég gat um það áðan, herra forseti, að þetta skipti miklu máli fyrir íbúa þéttbýlisins og eðlilegt er að til slíkra mála sé litið. Ef horft er til allra bifreiða sem Íslendingar eiga nú, þá voru þær um síðustu áramót 180 þúsund og þar af eru á höfuðborgarsvæðinu 112 þúsund bifreiðar. Segja má að einhverjum finnist að hér sé nokkuð í lagt hvað áhrærir þéttbýlissvæðið, þar sé þegar búið að gera miklar og góðar framkvæmdir í vegamálum, en til þess ber þó að líta að af því svæði koma megintekjur þess sem í vegafé fer af bensíni og olíu.

Einnig má segja að þeir sumarbústaðaeigendur sem ég hef getið hér um og allir þeir sem eiga sumarbústaði leggja nokkuð meira af mörkum í sameiginlegan sjóð til átaks í vegagerð vegna þess að ef þessir aðilar ættu ekki sumarbústaði þá mundu þeir að öllu jöfnu ekki aka svo mikið sem raun ber vitni. Þeir fara jafnvel um hverja helgi austur fyrir fjall, eins og rætt var um hér rétt áðan og hv. þm. Kristján Pálsson kom inn á um lýsingu Hellisheiðar og breytingar á aðreinum þar, og um 8--9 þúsund bílar að meðaltali fara þar um á dag. Ég tel því að þetta mál sé þess eðlis að ekki sé verið að mismuna íbúum landsins með því að gera þetta átak og leiða þessi lög inn á þá braut að vegamálastjóri og Vegagerðin hafi heimildir til þess að aðstoða aðila sem vilja leggja fram eigið fé til að flýta fyrir vegagerð hér á landi.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, legg ég til að frv. verði vísað til hv. samgn.