Réttur til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 18:12:29 (6296)

2001-04-03 18:12:29# 126. lþ. 104.34 fundur 484. mál: #A réttur til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga# (réttur til starfsheitis o.fl.) frv., Flm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[18:12]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga, á þskj. 770, um breytingu á lögum nr. 27/1981, um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga.

Fyrsti flutningsmaður að þessu máli er Drífa J. Sigfúsdóttir varaþm., sem sat hér á þingi fyrr í vetur, og auk hennar eru flutningsmenn hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Jón Kristjánsson, Magnús Stefánsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Ásta Möller, Sigríður Jóhannesdóttir og Ólafur Örn Haraldsson, eða þingmenn úr fjórum þingflokkum.

Herra forseti. Á síðustu árum hefur aukist verulega framboð viðskiptamenntunar á háskólastigi um leið og háskólum hefur fjölgað. Vegna þessa er mikilvægt að endurskoða eldri lög sem ekki gerðu ráð fyrir þessari þróun.

Í lögum nr. 27/1981, um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga, kemur m.a. fram að aðeins þeir nemendur sem lokið hafa prófi úr viðskiptadeild Háskóla Íslands fái sjálfkrafa leyfi til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga. Nemendur úr öðrum skólum þurfa hins vegar leyfi menntamálaráðherra. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga hafi þeir menn hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi viðskiptaráðherra. Lagt er til að leyfisveiting til að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing verði flutt frá menntamálaráðuneyti til viðskiptaráðuneytis. Það er að ýmsu leyti eðlilegra að annað ráðuneyti en það sem eftirlit hefur með háskólum veiti slíkt leyfi og í þessu tilfelli liggur beint við að fela viðskiptaráðuneytinu verkefnið. Viðskiptaráðuneyti veitir t.d. verkfræðingum leyfi til að kalla sig verkfræðinga og sama á t.d. við um arkitekta, skipulagsfræðinga og tæknifræðinga. Þeir sem þurfa ekki slíkt leyfi ráðherra samkvæmt 1. gr. frumvarpsins eru hins vegar menn sem lokið hafa BS- eða cand. oceon.-prófi úr viðskiptadeild eða BS-prófi úr hagfræðideild viðurkennds íslensks háskóla, sbr. lög nr. 136/1997, um háskóla, og uppfylla skilyrði reglugerðar skv. 3. gr. laganna um innihald náms.

[18:15]

Aðrir háskólar sem bjóða upp á sambærilegt nám í viðskiptafræðum og Háskóli Íslands eru Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri. Nemendur úr þessum skólum njóta ekki sama réttar og nemendur úr Háskóla Íslands til að kalla sig viðskiptafræðinga. Út frá jafnræðissjónarmiði er eðlilegt að allir nemendur sem ljúka sambærilegu námi njóti sömu réttinda að námi loknu. Til að leiðrétta þennan mismun er nauðsynlegt að breyta lögum nr. 27/1981.

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. núgildandi laga tilnefnir Háskóli Íslands einn nefndarmann. Með hliðsjón af því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að aðrir en nemendur Háskóla Íslands megi kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga þykir eðlilegt að binda ákvæðið ekki við tilnefningu eins háskóla.

Í lögum um háskóla, nr. 136/1997, er m.a. fjallað um hlutverk háskóla og eftirlitsskyldu menntamálaráðherra með þeim. Þar er einnig kveðið á um að menntamálaráðherra setji almennar reglur, m.a. um það með hvaða hætti hver háskóli skuli uppfylla skyldur sínar um eftirlit með gæðum kennslunnar, hæfni kennara og hvernig ytra gæðaeftirliti skuli háttað. Í lögunum er einnig kveðið á um rannsóknarhlutverk, inntökuskilyrði, hæfni kennara og fjárveitingar. Þá segir í 3. mgr. 9. gr. laganna að menntamálaráðherra skuli gefa út skrá um viðurkenndar prófgráður og inntak þeirra. Að mati flutningsmanna er þó þörf á ítarlegri skilgreiningu á rétti manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga, samanber tillögu í frumvarpinu að nýrri 3. gr. um að viðskiptaráðherra skuli setja nánari reglur þess efnis.

Með því að Alþingi hefur skilgreint hlutverk háskóla, sem og menntamálaráðherra á ítarlegan hátt, er eðlilegt að nemendur með sambærilega menntun hljóti sambærileg réttindi í samræmi við próf sín. Á síðustu árum hefur námsframboð aukist verulega og miðað við þróun erlendis má gera ráð fyrir aukinni fjölbreytni námsframboðs. Því er með frumvarpinu gerð tillaga um nýja 3. gr. þar sem kveðið er á um að viðskiptaráðherra skuli setja reglugerð um innihald prófgráðu sem veitir mönnum rétt til að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing. Í reglugerðinni skal kveðið á um lágmarkskröfur um námslengd og vægi kjarnagreina og valkvæðra greina, þar á meðal hve stór hluti náms getur verið valkvæður. Slík reglugerð myndar staðal við mat á prófgráðum, innlendum sem erlendum þannig að allir njóti jafnræðis.

Lagt er til að lögin taki gildi 1. júní 2001 þannig að þeir nemendur sem ljúka framangreindum prófgráðum í vor úr öðrum háskólum en Háskóla Íslands geti öðlast réttindi til jafns við nemendur í Háskóla Íslands.

Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að umboð þeirrar nefndar sem menntamálaráðherra hefur skipað skv. 3. mgr. 2. gr. gildandi laga falli niður við gildistöku þessara laga og að frá sama tíma skuli viðskiptaráðherra skipa að nýju í nefndina.

Herra forseti. Það er grundvallaratriði að allir sem ljúki sambærilegu prófi innan sömu greinar njóti sömu réttinda. Á síðustu árum hefur námsframboð á háskólastigi aukist verulega og boðið er upp á styttra nám sem lýkur með diplómaskírteini þannig að ákvæði í lögum nr. 27/1981, um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga --- en þar er talað um að viðkomandi þurfi að hafa lokið prófi úr Háskóla Íslands --- er ófullnægjandi þar sem háskólum á þessu sviði hefur fjölgað auk þess sem t.d. Háskólinn í Reykjavík útskrifar nemendur með diplóma eftir tveggja ára nám. Jafnræðislög gera ráð fyrir jafnræði þegnanna þannig að ætla má að allir nemendur sem lokið hafa sambærilegum prófum á sviði viðskipta ættu að njóta sama réttar. Lögin eru því úrelt og þarfnast lagfæringar hvað þetta varðar.

Þeir skólar sem þarf að skoða sérstaklega eru Háskólinn í Reykjavík, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Háskólinn á Akureyri og Tækniskólinn. Allir skólarnir bjóða upp á BS-nám á sviði viðskipta en nemendur skólanna njóta ekki jafnræðis gagnvart lögum. Ekki er talað um nemendur Tækniskólans í greinargerð með frv. en mikilvægt er að nám þessara nemenda verði skoðað við gerð staðals um innihald menntunar nemenda sem fá nafnbótina viðskiptafræðingar.

Þar sem námsframboð eykst mjög hratt er mikilvægt að settur verði gæðastaðall eða viðmið um hvaða nám uppfylli kröfur um nafnbótina viðskiptafræðingur. Dæmi um slíka viðmiðun er að finna í auglýsingu um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig verkfræðing, nr. 845/1999, og í reglum nr. 112, um nám sem leiðir til fullnaðarmenntunar í skipulagsfræðum. Í báðum tilfellum veitir viðskrh. leyfið. Þá er í lögum nr. 8, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, frá 11. mars 1996 að finna ákvæði í 3. gr. sem segir til um rétt manna til að fá löggildingu starfsheitanna samkvæmt reglum að fenginni umsögn viðkomandi fagfélags, en lög þessi miðast við tilskipanir Evrópusambandsins.

Það hlýtur að vera krafa nemenda þegar veitt er fé til skóla að þeir uppfylli kröfur sem gerðar eru til slíks náms. Það á ekki að gera tilraunir á nemendum um annars flokks nám og ekki verður öðru trúað en að skólar sem hafi fengið leyfi til að útskrifa nemendur með BS-próf á sviði viðskipta hafi uppfyllt þær kröfur sem settar hafa verið.

Önnur mikilvæg rök fyrir lagabreytingunum eru að það er nauðsynlegt fyrir atvinnulífið að hægt sé að treysta því að þeir sem fái leyfi til að kalla sig viðskiptafræðinga hafi lokið sambærilegu prófi.

Að lokum er rétt að geta þess að hópur nemenda í Háskólanum í Reykjavík mun útskrifast með BS-gráðu í viðskiptum í byrjun júní nk. en nemendur hafa enn ekki fengið úr því skorið hvort þeir mega kalla sig viðskiptafræðinga. Þetta skapar óvissu og getur skaðað möguleika þeirra við að sækja um störf á vinnumarkaði. Það er því mikilvægt réttlætismál að Alþingi taki málið til afgreiðslu sem fyrst þannig að allir nemendur sem ljúka sambærilegu námi njóti sambærilegra réttinda.

Ég vil svo að endingu, herra forseti, geta þess að hv. þm. Drífa Sigfúsdóttir spurðist fyrir um þetta mál fyrr á þessu þingi og fram kom í svörum hæstv. menntmrh. að hann taldi rétt að breyta fyrirkomulaginu í þá veru sem frv. gerir ráð fyrir og fagnaði áformum þingmannsins sem hann upplýsti um í þeirri umræðu að flytja frv. það sem hér er nú mælt fyrir. Ég vil leyfa mér að vitna til orða hæstv. menntmrh. að lokum til þess að undirstrika stuðning ráðherrans við efni frv.

Ráðherrann sagði, með leyfi forseta:

,,Ég fagna því að hv. þm. ætla að leggja fram frv. til að taka af skarið með að nemendur sem útskrifast hafa með BS-próf frá viðskiptadeildum Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Viðskiptaháskólanum á Bifröst fái heimild til að kalla sig viðskiptafræðing. Það er eðlilegur vettvangur hér á þinginu að taka afstöðu til þess þar sem þetta er í lögum.

Ég vil einnig hvetja hv. þm. til að velta því fyrir sér við þá breytingu hvort ekki eigi að flytja málið úr höndum menntmrn. yfir til iðn.- og viðskrn. Það yrði meinalaust af minni hálfu.``

Ég hef þá lokið, herra forseti, við að mæla fyrir þessu frv. í forföllum 1. flm. og hef gert grein fyrir framsöguræðunni eins og þingmaðurinn hafði ráðgert að hún yrði.