Réttur til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 18:25:16 (6298)

2001-04-03 18:25:16# 126. lþ. 104.34 fundur 484. mál: #A réttur til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga# (réttur til starfsheitis o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 27/1981, um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga, miðar að því, eins og hv. framsögumaður rakti, að gilda skuli jafnræði á milli háskóla sem veita menntun á sambærilegum stigum, að það skuli veita jafnræði gagnvart þeim nemendum sem útskrifast úr því námi.

Ég styð þá nálgun málsins alveg heils hugar að þessum lögum verði breytt og reyndar í samræmi við aðrar þær breytingar sem hafa verið gerðar á umgjörð háskólanáms og háskólastarfs. Svo er að í lögum um háskóla eru settar almennar reglur um gæði kennslunnar og inntak námsins. Sömuleiðis er í þessum lögum um háskóla skylt að setja hinar almennu reglur um hvernig bæði hinu ytra og innra gæðaeftirliti skuli háttað og að tryggt sé að háskólar séu ekki að kenna annað en viðurkennt er og því er eðlilegt að því sé fylgt eftir út og með nemendunum þegar þeir ljúka þar námi þannig að þá hafi þeir hliðstæð réttindi, fái að kalla sig eftir námsgráðum hliðstætt því og námið veitir rétt til og að þar sé jöfnuður á milli skóla.

Ég vil þó leggja áherslu á þegar þessi tilaga fer til nefndar að þess sé jafnframt líka gætt að fara ofan í fleiri þætti sem lúta að þessu til að fullt samræmi verði. Það hvort síðan viðskrn. eða menntmrn. gefi út þessar námsgráður er að vissu leyti framkvæmdaratriði því að samkvæmt lögum um háskóla skal menntmrh. gefa út skrá um viðurkenndar prófgráður og inntak þeirra, þ.e. samkvæmt háskólalögunum. Það á samkvæmt þeim lögum að liggja fyrir og því ætti að vera þægilegt að fylgja því eftir með þessum námsgráðum og rétti viðkomandi sem ljúka þessu námi til að kalla sig viðskiptafræðinga og hagfræðinga eins og hér er verið að leggja til. Ég styð að þetta mál fari áfram þannig að þarna verði sá jöfnuður sem að er stefnt.