Bætt umferðaröryggi á þjóðvegum

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 19:18:35 (6311)

2001-04-03 19:18:35# 126. lþ. 104.39 fundur 528. mál: #A bætt umferðaröryggi á þjóðvegum# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[19:18]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er um afar þarfa till. til þál. að ræða sem fjallar um bætt umferðaröryggi á þjóðvegum landsins. Það er sannarlega áhyggjuefni hversu alvarleg umferðarslys virðast færast í vöxt og þó að greinargerð tillögunnar beini sjónum kannski fyrst og fremst að Reykjanesbraut, þá verða hin alvarlegu slys ekki síður á sambærilegum vegum eins og Suðurlandsvegi eins og komið hefur fram í máli hv. þm. sem talað hafa hér í dag. Ekki má gleyma Vesturlandsvegi sem er að hluta þjóðvegur sem liggur í gegnum þéttbýli og samkvæmt skýrslum og tölum sem við höfum haft aðgang að er slysatíðni afskaplega há þar.

Þetta tengist að hluta líka þeim málum sem hafa verið til umræðu varðandi hjólreiðarnar. Þessi tillaga felur í sér að mínu mati að taka þurfi heildstætt á þessum málum. Sá listi sem lagður er fram í greinargerðinni með þessum sjö atriðum er afar greinargóður og ég sé ekki betur en að verkefnaskráin sem í honum felst sé yfirgripsmikil og kafi djúpt.

Í ljós hefur komið að starfandi hefur verið starfshópur á vegum dómsmrh. sem ráðherra skipaði til að fara yfir umferðarlög og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra í þeim tilgangi að gera tillögur og ábendingar um atriði sem betur mættu fara. Nú höfum við fengið í þingsal í dag frv. til laga um breytingu á umferðarlögum þar sem örfá atriði eru tekin út úr tillögum starfshópsins en jafnframt kemur fram að starfshópurinn, sem skilaði skýrslu til ráðherra í febrúar 2001, hafi gert fjölmargar tillögur um breytingar á lögum og reglum um umferðarmálefni. Að öðru leyti en fram kemur í því frv. sem var dreift í dag eru tillögur hópsins til nánari athugunar í ráðuneytinu. Mér sýnist því að með samstilltu átaki eigi að vera hægt að gera átak sem skiptir sköpum í því þarfa máli að bæta umferðaröryggi á þjóðvegum landsins og fagna því þessari till. til þál. og lýsi yfir stuðningi mínum við hana.