Bætt umferðaröryggi á þjóðvegum

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 19:25:48 (6313)

2001-04-03 19:25:48# 126. lþ. 104.39 fundur 528. mál: #A bætt umferðaröryggi á þjóðvegum# þál., Flm. ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[19:25]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls í umræðunni um þessa tillögu og ítreka það sem þeir höfðu veitt athygli. En tillagan víkur að því að brugðist verði við auknum fjölda umferðarslysa og sérstaklega auknum fjölda alvarlegra umferðarslysa sem leiða til dauðsfalla, með heildstæðum viðbrögðum, ekki einungis með stórframkvæmdum á stærstu þjóðvegunum, heldur einnig með aðgerðum sem lúta að aukinni og hertri umferðarfræðslu, bættri löggæslu og öðrum athöfnum sem gætu aukið einbeitingu ökumanna. Það kemur sérstaklega fram, herra forseti, að einbeiting eða ónæg athygli ökumanna er meginástæðan fyrir umferðarslysum.

Nýlega kom fram á hinu háa Alþingi skriflegt svar um ástæður umferðarslysa á Reykjanesbraut frá hæstv. dómsmrh. vegna fyrirspurnar nokkurra hv. þm. Þar kemur fram að af um 65 skráðum slysum á Reykjanesbrautinni á undanförnum átta, níu árum má rekja um 30 til slakrar einbeitingar eða gáleysis ökumanna. Eru þá til viðbótar þau sem talin eru hafa orsakast af of hröðum akstri miðað við aðstæður.

Þrátt fyrir það, herra forseti, að bæði í greinargerðinni með þessari tillögu er minnst á Reykjanesbraut svo og í þeirri fyrirspurn sem ég minntist á liggur fyrir álit Vegagerðarinnar og fleiri aðila sem kanna umferðarslys og fylgjast með hvernig þau hafa orðið, hvar þau gerast flest, hvað gæti valdið, að öryggisástandið er verst á Vesturlandsvegi. Það hefur verið mjög versnandi á Reykjanesbraut og nú síðast á Suðurlandsvegi. Allt þetta kemur fram með einhverjum hætti í greinargerð með tillögunni en það sem mestu skiptir og er meginefni í þessu máli og við eigum að láta okkur mestu varða er að við náum fram bættri umferðarmenningu á Íslandi. Hún er ekki í nógu góðum farvegi.

Erlendir borgarar sem hingað koma, ferðalangar að sinna erindum sínum og fara hér út í umferðina, viðurkenna fljótlega að þeir viti ekki hvort hér ríkir hægri eða vinstri umferð. Þeir viti ekki hvort Íslendingar sem koma akandi hafa virkilega lokið morgunkaffinu, svo stressaðir eru þeir. Þetta er lýsing erlendra gesta sem koma hingað og verða að fara út í umferðina á Íslandi.

Sem betur fer er eitthvað að lagast í ökukennslunni en þó verð ég líka að viðurkenna þegar ég nefni þetta, að það er ótrúlegt að sjá hversu margir ungir ökumenn aka vinstra megin í hægri umferð.