Friðargæsla

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 13:48:43 (6316)

2001-04-04 13:48:43# 126. lþ. 106.1 fundur 618. mál: #A friðargæsla# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Í umræðum um skýrslu utanrrh. á hinu háa Alþingi í liðinni viku kom fram í máli hæstv. ráðherra að unnið væri af fullum krafti að því að stórauka á næstu árum framlag Íslands til friðargæslu. Jafnframt kom fram í máli utanrrh. að fljótlega yrði auglýst eftir fólki sem tilbúið væri til þess að starfa í friðargæslu fyrir Íslands hönd. Af þessu tilefni hef ég lagt fram svohljóðandi fyrirspurn með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur til hæstv. utanrrh., í sex liðum, með leyfi forseta:

1. Hvernig miðar undirbúningi þátttöku Íslendinga í friðargæslu?

2. Hvernig verður framkvæmd friðargæslunnar háttað og hver mun þjálfa íslenska friðargæsluliða?

3. Hvað stendur til að þjálfa marga Íslendinga til slíkra starfa?

4. Hvers konar störf eiga Íslendingar að inna af hendi?

5. Hver er áætlaður kostnaður?

6. Er friðargæslan liður í þátttöku Íslendinga í NATO?

Herra forseti. Í greinargerð sem starfshópur á vegum utanrrn. skilaði sl. haust kemur fram að eðli friðargæslustarfa hefur breyst mikið, ekki síst á sl. áratug. Verkefnið felst ekki lengur einvörðungu í því að gæta friðar sem komið hefur verið á með samkomulagi stríðandi aðila heldur hefur það orðið víðtækara og margbreytilegra og t.d. beinst að uppbyggingu á stríðshrjáðum svæðum.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að hefðbundin friðargæsla hafði beðið skipbrot í Rúanda 1994 og í Srebrnica í Júgóslavíu 1995. Það er því miður hverju orði sannara. Eitt verða ríki heims að læra af þeim ófyrirgefanlegu mistökum sem þá voru gerð. Friðargæsla verður að hafa mjög skýr markmið og óskoraðan pólitískan stuðning ríkjanna sem leggja til hennar bæði fé og mannafla.

Ég segi þetta hér, herra forseti, vegna þess að þátttaka í friðargæslu kallar ekki bara á starfsmenn heldur virka þátttöku í því ferli sem lýkur með friðarsamkomulagi sem þarf að gæta og framfylgja. Það liggur í augum uppi að starf friðargæsluliðans er bæði vandasamt og hættulegt. Þjálfun og starfsmannahald friðargæsluverkefnisins hlýtur því að kalla á sérfræðiþekkingu á þessu sviði og þess vegna væri fróðlegt að vita með hvaða hætti þeim þáttum verður stjórnað úr ráðuneytinu og hvort hæstv. utanrrh. telur að leita þurfi ráðgafar utan ráðuneytisins í þeim efnum.